135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

mannvirki.

375. mál
[18:21]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar spurningu hv. þm. Kjartans Ólafssonar um 2. gr. frumvarpsins, um það hvort sú hugmynd hafi verið rædd að tengja fasteignagjöldin við þessa skilgreiningu þá skilst mér að það hafi ekki verið gert og það hafi ekki verið til umræðu í þessu langa ferli.

Hvað varðar 13. gr. þá verður einfaldlega að gæta þess að samræmi sé á milli lagabókstafsins og reglugerðarinnar.

Ég vil vara hv. þingmenn við því að fara mjög langt á undan sér í umræðunni um eina nýja stofnun. Hér er ekki verið að leggja það til í þeim frumvörpum sem við höfum verið að ræða, frumvarpi til skipulagslaga og frumvarpi til laga um mannvirki heldur það að sundurgreina og skýrt skilgreina þá stjórnsýslu sem hér er á ferðinni og gera hana í raun skýrari og gegnsærri en hún hefur verið auk þess, sem er atriði sem má ekki gleymast í þessari umfjöllun, að hér er verið að lyfta, bæta og efla byggingarhlutann, eftirlitshlutann með mannvirkjum og nýbyggingum hér á landi og þar hefur vantað upp á á síðustu árum og áratugum. Við þurfum að bæta þann hluta og við teljum að við gerum það best með þessum hætti.