135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

mannvirki.

375. mál
[18:23]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er hér til umfjöllunar síðara frumvarpið af tveimur sem leysa eiga af hólmi lög nr. 73/1997 og það frumvarpið sem fremur er tæknilegs eðlis eða meira tæknilegs eðlis en pólitísks og eðlilegt þess vegna að umræða um það verði nokkru skemmri og hafi nokkuð verið reifað í hinni fyrri umræðunni. Ég held þó að það megi klárlega segja um það frumvarp um mannvirki sem hér fyrir liggur að í því felast verulegar framfarir í byggingareftirliti og ýmsar nýjungar á því sviði sem vissulega sé þörf á og sú þróun sem við höfum fylgst með í byggingariðnaði á undanförnum árum gefur fullt tilefni til að endurskoða og efla alhliða byggingareftirlit en fram til þessa höfum við sem kunnugt er lagt mikla áherslu á eldvarnarþáttinn en kannski síður á ýmsa aðra þætti í byggingareftirliti.

Hér er það auðvitað eins og með fyrra frumvarpið að það skarast að nokkru við hlutverk og valdmörk ríkis og sveitarfélaga enda sveitarfélögin á sínum tíma stofnuð beinlínis um brunavarnir og fátækraframfærslu og í þeim skilningi einhvers konar tryggingafélög síns tíma. Þess vegna er rík hefð fyrir því að þau mál liggi heima í héraði og þær efasemdir sem hér hefur verið hreyft um að leggja af byggingarnefndirnar eru þess vegna eðlilega fram komnar. En ég tel að sú áhersla sem hæstv. ráðherra lagði á það í sinni framsögu um að eftir sem áður væri það heimilt mæti nú þeim sjónarmiðum að nokkru.

Á sínum tíma átti ég sem formaður stjórnkerfisnefndar Reykjavíkurborgar frumkvæði að því að hér voru sameinaðar í eina nefnd byggingarnefnd og skipulagsnefnd. Það var eftir að rannsókn leiddi í ljós að íbúunum var vísað á milli nefndanna í tíma og ótíma jafnvel ítrekað þannig að það að tvískipta því var til verulegs trafala fyrir þá sem njóta áttu þjónustunnar. Það var þess vegna til einföldunar gert og hefur síðan verið. En ég tek undir með hv þingmanni Árna Þór Sigurðssyni að það væri þó ákjósanlegt að það væri ekki aðeins heimilt að starfrækja slíkar nefndir heldur mikilvægt að við tryggjum að það séu áfrýjunarleiðir heima í héraði vegna þess að eins og hér kom fram hjá hæstv. ráðherra þá hefur málafjöldi verið óhóflegur hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Fjárveitingar þar eru af skornum skammti og þess vegna er brýnt, og líka bara út frá almennum sjónarmiðum, að sem allra flestum ágreiningsmálum megi ráða til lykta heima í héraði og að þar hafi menn leiðir til þess og úrræði til þess en sem fæst þurfi að koma til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þó að auðvitað verði það eftir sem áður talsverður málafjöldi sem það gerir.

Ég held líka að það megi ráða af umræðunni hér að menn hljóta að skoða það hvort mannvirkjastofnunin eigi að vera sérstök stofnun. Ég vek þó athygli á því að það er ekki ný stofnun í sjálfu sér því að við höfum Brunamálastofnunina fyrir og það er í raun og veru bara útvíkkun á hennar verksviði og meiri samhæfing í eftirliti með byggingum almennt sem þeirri stofnun væri falið þannig að við erum ekki að búa bara til hreinlega nýja ríkisstofnun með þessu. En það er sjálfsagt að skoða hvort það væri ávinningur að því að hafa skipulags- og byggingarmálin í einni stofnun eins og þau eru víða rekin í einni og sömu nefndinni og í einu og sama embættinu hjá sveitarfélögunum. En ég tek undir með hæstv. ráðherra að ég tel að hingað til hafi í umræðunni ekki komið fram þau efnisrök fyrir því að hafa þetta eina og sömu stofnunina sem duga til þess að gera þær breytingar á málinu. En það getur auðvitað ýmislegt komið fram við umfjöllun nefndarinnar.

Þá vil ég í þriðja lagi nefna byggingaröryggisgjaldið. Það felur í sér nokkuð hærri gjaldtöku en það nú er og við erum sömuleiðis að sjá ný störf verða til í eftirliti. Það er mikilvægt að Alþingi fari vel yfir þá þörf sem hér er verið að mæta, hversu mikil hún er og hvaða kostnaður því verði samfara og veiti það aðhald með stjórnsýslunni í aukinni eða nýrri gjaldtöku sem eðlilegt er að þingið veiti.

Þess utan verða fjölmörg mál sem umhverfisnefndin þarf að skoða sérstaklega. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera vel grein fyrir málinu hér og hlakka til að fást við það í góðri samvinnu við aðra nefndarmenn í umhverfisnefnd.