135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

mannvirki.

375. mál
[18:30]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nýta þetta andsvar til þess að svara spurningum sem komu frá hv. þm. Helga Hjörvar og hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, þeim síðarnefnda um kostnaðarmat fyrir sveitarfélögin. Það mun hafa farið fram og komið í ljós að af þessu breytta fyrirkomulagi væri ekki kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin í landinu.

Hvað varðar áfrýjunarleiðir í héraði þá hefur komið fram við umræðu og undirbúning þessa máls sú ábending að þær þyrfti að skoða betur. Áfrýjunarleiðin í frumvarpinu er til úrskurðarnefndarinnar og með einhverjum hætti, ef ég man rétt, beint til Byggingarstofnunar sem er eftirlitsaðili í málinu. Ég legg það í hendur hv. umhverfisnefndar og formanns hennar, hv. þm. Helga Hjörvars, að skoða það mál nákvæmlega við umfjöllunina í nefndinni.