135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

brunavarnir.

376. mál
[18:58]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fara aðeins yfir þá ræðu sem hv. þm. Jón Gunnarsson flutti áðan varðandi björgunarmálin. Ég get verið honum sammála um það verkefni umhverfisnefndar að fara nákvæmlega yfir þennan þátt frumvarpsins. Ég vil ekki gera lítið úr því ómetanlega sem björgunarsveitirnar í landinu vinna fyrir þessa þjóð. Það er öllum kunnugt. Ég er sannfærður um að bæði í hv. umhverfisnefnd og á Alþingi eru störf björgunarsveitanna mikils metin.

Ég hef í dag, í umræðu um mannvirkjafrumvarpið og skipulagsmálin, lagt áherslu á að við værum að horfa fram á eina stofnun, eina stofnun sem tæki þetta allt yfir. Nú langar mig að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson: Er ekki hægt að samræma og ná meiri samhæfingu vinnuafls, þekkingar og tæknibúnaðar?

Þá langar mig að spyrja nákvæmar og skýra það sem ég á við. Á Selfossi er verið að byggja upp björgunarmiðstöð þar sem slökkvilið, björgunarsveitin og sjúkraflutningar eru til húsa í sama húsi og vinna saman. Er það ekki einmitt þetta sem við þurfum að huga að? Að samhæfa kraftana og ná sem bestri nýtingu úr þeirri fjárfestingu, þekkingu og mannafla sem við erum með?