135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

brunavarnir.

376. mál
[19:00]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni að samstarf er lykillinn að árangri á þessum vettvangi eins og öðrum. Á undanförnum árum hafa verið stigin mjög mikilvæg skref í samstarfi viðbragðsaðila í landinu. Nægir þar að nefna sameiginlega neyðarsímsvörun, 112, sem skilað hefur alveg gríðarlega miklum árangri og hraðari og skipulagðri boðun viðbragðsaðila á slysstað. Við höfum komið okkur saman um, sem er nánast alveg einstakt í heiminum, samræmingarstöð á sviði almannavarna og allra stærri aðgerða í landinu í Skógarhlíð. Þar starfa þessir aðilar allir saman að stjórnun og skipulagi þeirra verkefna sem verið er að leysa hverju sinni og svo má lengi telja.

Ég kom inn á það áðan að t.d. í rústabjörguninni, sem hér var sérstaklega til umfjöllunar, er samstarf á milli björgunarsveita og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, rústahópanna og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ákveðnir aðilar hafa verið hluti að þessari rústabjörgunarsveit en þeir hafa fyrst og fremst haft það verkefni að vera bráðaliðar. Þeir sinna björgunarfólki sem slasast eða fólki sem verið er að leita að og bjarga. Það er þetta sem málið snýst um. Þegar verið er að lögfesta verkefnið sem hefur kannski legið lögfest fram að þessu, hvort það hefur þá verið undir lögreglu eða björgunarsveitunum, þá óttast ég að þeir sem eiga að fá verkefnið samkvæmt lögum muni fara að sinna þessum verkefnum meira sjálfir. Þetta verði þá til þess að draga úr starfsemi björgunarsveitanna, það er það sem ég hræðist.