135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

tilkynning frá ríkisstjórninni.

[13:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að þessar upplýsingar eru veittar hér. Mér finnst fullkomlega eðlilegt og viðeigandi að Alþingi taki málið strax til einhverrar umfjöllunar þótt ekki væri nema vegna þess að ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit um þó nokkra þátttöku hins opinbera í formi útgjalda sem þessum kjarasamningum tengjast.

Það er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni þegar aðilar vinnumarkaðarins ná saman um gerð kjarasamninga án átaka eða verulegra vandkvæða í samskiptum sínum og alveg sérstaklega ef menn ganga báðir sæmilega sáttir frá því borði.

Ég vil láta það koma skýrt fram af hálfu okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að við fögnum hugmyndafræðinni sem liggur að baki þessum samningum. Við teljum að nálgunin sé rétt og virðingarverð, að reyna að lyfta lægstu umsömdum launum og færa lægstu kauptaxtana upp í áttina að því sem almennt er greitt á vinnumarkaði og í áttina til þeirra sem notið hafa launaskriðs á undanförnum árum.

Ég býst við því að þeir sem mest fá út úr þessum samningum séu félagsmenn Starfsgreinasambandsins, t.d. starfsfólk í framleiðslufyrirtækjum, ferðaþjónustu og fleiri greinum. Ég reikna þó sérstaklega með því að starfsfólk á þessum sviðum á landsbyggðinni, þar sem kjarasamningar og kauptaxtar gilda í ríkari mæli en á meira þöndum vinnumarkaði hér á suðvesturhorninu, fái einna mest út úr samningunum.

Þetta er því jafnframt launajöfnunaraðgerð og ætti að minnka eitthvað gjána sem vaxið hefur hratt undanfarin ár í meðallaunagreiðslum á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar. Hin ágætu fréttabréf Kjararannsóknarnefndar, meðan þau komu út, voru góð heimild um það. Nú má fá gögn um slíka hluti til skoðunar á Hagstofunni.

Það breytir hins vegar ekki því að hér er samið um mjög lág laun. Hér er samið um mánaðarlaun fyrir fulla vinnu upp á 137.700 kr., eða 145.000 kr. með þeirri tryggingu sem menn eiga að njóta að lágmarki eftir tiltekinn tíma í starfi. Þetta eru rétt rúmlega 10.000 kr. danskar á mánuði, í landi þar sem framfærslukostnaður og verðlag er þó nokkru hærra en í Danmörku. Ætli það þætti ekki nokkuð mögur uppskera hjá danskinum ef þetta væru þau laun sem mönnum væri ætlað að komast af á?

Það er líka þannig að mönnum gengur ákaflega illa, jafnt opinberum aðilum sem öðrum, að reikna framfærslukostnað einstaklings svo sómasamlegt sé niður fyrir 180–200 þús. kr. á mánuði hið minnsta. Framfærslukostnaður einstæðs foreldris með eitt til tvö börn er reiknaður að minnsta kosti upp á 250–300 þús. kr. Þessar tölur verðum við að horfast í augu við og viðurkenna um leið og við fögnum því að viðleitni sé af hálfu aðila vinnumarkaðarins til að lyfta lægstu laununum, lyfta launabotninum á Íslandi, ef svo má að orði komast. En veruleikinn er hins vegar sá að hann er óþolandi lágur. Við erum föst hér í vítahring lágs tímakaups og langrar vinnuviku og okkur miðar ekki mikið í því að komast út úr því.

Þegar kemur að hlut ríkisstjórnarinnar þá er hann rýr. Menn reikna þetta upp á 20 milljarða með því að leggja saman öll árin og hafa það þá með að pakkinn er feitastur í hinn fjarlægari enda eins og stundum vill verða þegar góðverk ríkisstjórna eiga í hlut. Þegar skattapakkinn er skoðaður sérstaklega vekur auðvitað athygli að launamenn þurfa að bíða lengi eftir góðverkum ríkisstjórnarinnar en fyrirtækin fá sinn glaðning strax. Hæstv. forsætisráðherra, það er ekki hægt að koma honum fyrr til framkvæmda en að láta hann gilda á yfirstandandi tekjuári. Það er nú bara þannig.

Það er t.d. umhugsunarefni að skattleysismörkin, jafngríðarlega mikið og þau hafa sakkað niður undanfarin ár, eiga að lyftast í þessum hægu skrefum og komast í 115 þús. kr. á mánuði eða svo, að teknu tilliti til verðbreytinga á árinu 2011. Um hvað hafa menn verið að tala á undanförnum árum? Hafa menn ekki jafnvel talað um að 150 þús. kr. væri lágmark? Er það ekki um það bil þar sem skattleysismörkin ættu að vera ef þau hefðu fylgt launaþróun frá því að núgildandi kerfi komst á, en kannski um 125–130 þús. í dag ef þau hefðu fylgt verðlagsþróun?

Það er rétt að hafa í huga hér að það á eftir að semja við alla opinbera starfsmenn. Það á eftir að semja við fjölmennustu hópa sem sinna umönnunar- og uppeldisstörfum í þjóðfélaginu. Það á eftir að semja við fjölmennustu kvennastéttirnar í landinu sem þeim störfum sinna. Þar verður prófsteinn á hvort menn gera alvöru úr að bæta kjör og starfsaðstæður í þeim stéttum þannig að unnt sé að manna þjónustuna og unnt sé að höggva eitthvað í hinn illræmda kynbundna launamun.

Það sem mestu máli mun skipta fyrir þessa kjarasamninga þegar upp er staðið er ekki hvað okkur finnst um þá í augnablikinu — og á þeim er að sjálfsögðu eðlilegast að segja bæði kost og löst — heldur hvernig þeim mun reiða af í samhenginu hagstjórn og verðþróun og aðstæður í þjóðarbúskapnum á komandi missirum. Þá mun verða úr því skorið hvort í þessum samningum felst einhver kjarabót fyrir allra lakast setta hlutann á launamarkaði. Um aðra þarf ekki að ræða mikið í þeim efnum. Þá mun líka á það reyna hvort forsendur þessara kjarasamninga halda en þær eru samkvæmt orðanna hljóðan þessar: Að kaupmáttur launa haldist eða aukist og að verðbólga fari lækkandi. Hér er samið í 5–7% verðbólgu og horfurnar á því að hún fari lækkandi eru kannski ekki allt of góðar, alla vegana ekki ef ríkisstjórn verða jafnmislagðar hendur um hagstjórn á komandi mánuðum eins og þeim hefur verið að undanförnu.

Út frá þessu munu kjarasamningarnir fyrst og fremst ráðast og hvaða innlegg þeir geta orðið. Að sjálfsögðu er gott að eyða óvissu um kjarasamninga og óvissu á vinnumarkaði en þeir verða ekki skoðaðir og metnir öðruvísi þegar upp er staðið en í samhengi við efnahagsþróunina, verðbólguna og hagstjórnina og hvernig til tekst með hana.

Ég er því miður sannfærður um að þeir sem skoða alveg sérstaklega framlag ríkisstjórnarinnar munu verða fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir sjá hversu naumt þeir skammta, hversu rýr í roðinu hlutur ríkisstjórnarinnar er borið saman við fyrirheit í stjórnarsáttmála. Svo ekki sé nú talað um kosningaloforð, einkanlega Samfylkingarinnar, sem lofaði fyrir kosningar að gera miklum mun meir á fjölmörgum sviðum, kæmist hún til valda heldur en nú stendur til að gera samkvæmt þessu, allt fram til ársins 2011. Auðvitað væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hér: Er velferðarmálapakki ríkisstjórnarinnar þar með tæmdur úr því að hér eru tímasettir liðir allt fram til loka kjörtímabils eða stendur til að gera betur í einhverjum tilvikum?

Ég endurtek að aðilar vinnumarkaðarins eiga að mörgu leyti hrós skilið fyrir það hvernig þeir lögðu þessa hluti upp og hvar þar er verið að reyna. Það er gott svo langt sem það nær. Það gengur því miður mjög skammt og lægstu laun á Íslandi eru áfram óþolandi lág og langt undir framfærslukostnaði og þar með fátæktarmörkum. En viðleitnin er í rétta átt. Hlutur ríkisstjórnarinnar liggur hins vegar eftir eins og stundum áður og endranær.