135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

yfirlýsing ráðherra.

[14:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eflaust má deila um þau hugtök sem hér eru notuð, hvort við tölum um bessaleyfi eða duttlungastjórnun, jafnvel pólitíska duttlungastjórnun. Hæstv. forseti segir að hann hafi hagað skipan á þann veg að það þjónaði sem best umræðunni, þjónaði sem best málefnalegri umræðu. Ég leyfi mér að halda því fram að þetta þjóni fyrst og fremst pólitískum hagsmunum ríkisstjórnarinnar sem er að reyna að slá sig til riddara á grundvelli þeirra kjarasamninga sem hér er verið að fjalla um.

Ég tek undir að þessir samningar og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðar kalla á miklu meiri umræðu í þinginu, t.d. varðandi svokallaðan áfallatryggingasjóð sem ætlast er til að ríkið komi að, almannatryggingar og lífeyrissjóðir. Þetta kallar að sjálfsögðu á víðtæka umræðu í þjóðfélaginu áður en frá þeim er gengið.

En varðandi hinn málefnalega þátt (Forseti hringir.) og hina málefnalegu aðkomu ríkisstjórnarinnar, þá fannst mér fara harla lítið fyrir henni í yfirlýsingum og hnjóðsyrðum sem komu frá formanni Samfylkingarinnar í lok umræðunnar.