135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

yfirlýsing ráðherra.

[14:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að þessi skoðanaskipti sýni hversu misráðið það var að láta þessa umræðu ekki fara fram samkvæmt þingsköpum, þ.e. þegar forsætisráðherra eða annar ráðherra óskar að gefa þinginu munnlega yfirlýsingu, flytja þinginu munnlega skýrslu eða gefa yfirlýsingu um opinbert málefni, þá skal fara um þá umræðu eins og fer um umræður um skýrslur. Í þeim umræðum eru tvær eða fleiri umferðir og þá er að sjálfsögðu vel viðeigandi að menn beri upp spurningar, enda hafa menn þá kost á að svara þeim í seinni ræðum sínum. Ef það var ætlun þessarar umræðu að hægt væri að leggja fram spurningar fyrir hæstv. forsætisráðherra sem er málshefjandi hér þá hefði að sjálfsögðu þurft að ganga þannig frá málum að hann fengi orðið aftur. En að nota það sem rök að hæstv. utanríkisráðherra botni umræðuna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þannig að hún eigi bæði fyrsta og síðasta orðið, það heldur ekki. Ef tilgangur umræðunnar var m.a. sá, sem við vorum ekki upplýst um, að mönnum gæfist kostur á að bera fram spurningar við hæstv. ráðherra, átti að sjálfsögðu að skipuleggja umræðuna í samræmi við það og þá var eðlilegt að allir hefðu jafnan rétt í þeim efnum, gætu borið upp spurningar sínar og fylgt þeim eftir eða brugðist við svörunum. Þannig er umræða hugsuð þegar menn eiga þess kost að skiptast á skoðunum. Ég tók það ekki þannig að umræðan væri hugsuð svoleiðis (Forseti hringir.) heldur að hér gæfist okkur kostur á að flytja yfirlýsingar af hálfu okkar flokka og í því ljósi var röð ræðumanna ekki eðlileg.