135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

vinna barna og unglinga.

[14:29]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er sagt að vinnan göfgi manninn og að það sé jákvætt að börn fái að kynnast atvinnulífinu og taka þátt í því. Ég held að við mörg hver lítum með stolti yfir farinn veg þegar við rifjum upp æskuár okkar þar sem við höfum mörg hver tekið þátt í atvinnulífinu á fyrri tíð. Á sama tíma er mjög mikilvægt að við gætum þess að börn valdi þeim störfum sem þau vinna og hafi líkamlegan og andlegan þroska til þess, beri ekki óeðlilega ábyrgð og séu ekki í vinnu sem þeim stafar hætta af.

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því hin seinni missiri að fjöldi barna vinnur í verslunum og stórmörkuðum við ýmis þjónustustörf. Manni er farið að bregða í brún hvað þetta er orðið umfangsmikið á sama tíma og manni finnst gott að börnin vinni eitthvað. Ég vil því gjarnan spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í þessi mál. Nú mega 13 og 14 ára börn vinna létt verslunarstörf, bæði í verslunum og stórmörkuðum, og reyndar létt skrifstofustörf og ýmis léttari störf. Það kemur fram í reglum að á starfstíma skóla, en samt utan skipulagðs skólatíma, mega þessi börn vinna tvær stundir á skóladegi og samtals tólf stundir á viku og óheimilt er að börn vinni eftir klukkan átta á kvöldin.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort brögð séu að því að börn vinni meira en þetta. Það er samkomulag um að þetta sé hæfilegt eins og löggjöfin er núna en maður hefur á tilfinningunni að börn séu farin að vinna í talsvert miklum mæli svo að það gæti jafnvel farið að koma niður á námi þeirra. Ég hef því áhuga á að vita hvort hæstv. félagsmálaráðherra er eitthvað að kanna þessi mál. Maður skilur að atvinnurekendur eru að reyna að bjarga sér í þenslunni sem verið hefur en á sama tíma (Forseti hringir.) verður að gæta þess að börn vinni ekki óeðlilega mikið.