135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

umferðarslys og vindafar.

[14:34]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra varðandi umferðarslys og vindafar. Líkt og menn vita er hluti umferðarslysa utan þéttbýlis á Íslandi til kominn vegna slæmra akstursskilyrða vegna veðurfars. Í mörgum þessara slysa eru vindur og hálka meðverkandi orsakir. Búast má við að vindur sé meðverkandi orsök í hluta umferðarslysa óháð staðsetningu á vegakerfinu. Hins vegar eru staðbundnar aðstæður á vissum stöðum á vegum landsins þannig að þar geta ítrekað myndast varhugaverð umferðarskilyrði vegna vindafars sem valdið geta slysum.

Má til að mynda nefna athugun undir Hafnarfjalli og aðstæður í Draugahlíðarbrekku jafnt sem á ýmsum stöðum uppi á Kjalarnesi en vel má vera að hæstv. ráðherra þekki fleiri staði. Unnin hafa verið ýmis verkefni vegna þessa máls og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort samgönguráðuneytið eða Vegagerðin horfi til niðurstaðna úr þeim verkefnum eða hvort ráðherrann hefur kynnt sér þessi mál. Ég tel að það sé afar mikilvægt þegar verið er að hanna vegakerfi landsins að skoða niðurstöður úr þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á umliðnum árum, sérstaklega með hliðsjón af því sem ég sagði hér í upphafi að hvort tveggja loftfræðilegir eða aflfræðilegir eiginleika hafa áhrif og einnig svörun ökumanns sem tengist vindafari.

Virðulegi forseti. Við þekkjum að vindafar hefur verið mjög mismunandi á undanförnum vikum og mánuðum og ökumenn vítt og breitt hringinn í kringum landið hafa lent í vandræðum, sérstaklega þar sem hálka hefur einnig tengst akstursskilyrðum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biðst velvirðingar á því að klukkan í ræðupúltinu lætur ekki alveg að stjórn.)