135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

umferðarslys og vindafar.

[14:38]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegurinn fyrir Tjörnes og í Kelduhverfi hefur vissulega skánað og er orðinn mjög greiðfær. Ég fór nýlega um hann og get tekið undir að þar er allur frágangur góður þannig að menn geta tekist á við aðstæður eins og hæstv. ráðherra hefur greinilega lent í í Kelduhverfi á sínum tíma.

Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir þann áhuga sem hann sýnir málinu. Ég tel að það sé afar mikilvægt, virðulegur forseti, að við horfum til þeirra rannsókna sem unnið hefur verið að á undanförnum árum varðandi vindafar. Ekki er bara um að ræða 2+2 vegi eða 2+1, heldur skiptir líka máli hvernig við hönnum vegina og þá sérstaklega með hliðsjón af veðurfari á Íslandi. Við höfum safnað miklum upplýsingum með vindmælingum og við eigum að styðjast við þær við hönnun á umferðarmannvirkjum.