135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

útgjöld til menntamála og laun kennara.

[14:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það fer nú hver að verða síðastur að ná í skottið á ráðherrum ríkisstjórnarinnar áður en þeir ljúka við að uppfylla allan stjórnarsáttmálann en það kom fram í yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra nýlega að 80% af verkefnum sáttmálans hefði þegar verið framfylgt. Ég bíð spenntur eftir því að vita hvað þeir muni gera þegar því er lokið.

Eitt af því sem er ólokið eru yfirlýsingar og stefna frá stjórnarþingmönnum um að hækka laun kennara. Það kemur fram í gögnum frá OECD að hvað varðar laun framhaldsskólakennara með 15 ára starfsreynslu, þegar tekið hefur verið tillit til mismunandi kaupmáttar í löndunum, er Ísland í 25. sæti af 30 ríkjum sem tekin eru til samanburðar og enn neðar þegar launin eru mæld sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á mann.

Ef maður skoðar hins vegar gögn um útgjöld til menntamála, og um það fjallar fyrirspurnin, kemur í ljós að útgjöld til menntamála hér á landi eru um 17% af útgjöldum hins opinbera en meðaltalið hjá OECD-ríkjunum er 13,4% þannig að við erum töluvert yfir því. Ef við mælum þetta sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hvers lands eru útgjöld hins opinbera á Íslandi 7,2% árið 2004 en hjá OECD 4,7% þannig að við erum u.þ.b. eða meira en 50% yfir því. Þetta eru auðvitað hlutir sem eru ákaflega athyglisverðir og ganga illa saman.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig ríkisstjórnin hyggist hækka laun kennara, hvort það verði þá til að hækka hlutfallið í útgjöldum ríkissjóðs. Á það að hækka útgjöld nemenda og fjölskyldna eða á það að fækka þeim sem starfa við menntun og hækka (Forseti hringir.) þannig laun hvers og eins?