135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

útgjöld til menntamála og laun kennara.

[14:44]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þingmanni að ráðherrar verða að svara fyrir útgjöld ríkisins á Alþingi. Eins og hv. þingmaður hefur eflaust tekið eftir hefur það verið stefna bæði þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu að auka fjármuni til menntamála og það sést berlega í þeim tölum sem um þetta eru birtar.

Hv. þingmaður vitnar til þeirrar stöðu sem nú er uppi eftir að gengið hefur verið frá kjarasamningum á hinum almenna markaði. Hann vitnar til þess að bregðast þurfi við þeirri stöðu sem nú er komin upp og að fjármálaráðherra eigi að taka mið af þeim niðurstöðum. Ég heyrði ekki betur í fréttum í morgun en að forsvarsmenn kennara neituðu því algjörlega að nokkurt mið yrði tekið af þeim samningum sem gerðir voru á almenna markaðnum.