135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

póstþjónusta í dreifbýli.

[14:51]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Já, ég skal skoða þetta og lesa yfir álitið frá Pósti og fjarskiptum sem ég hef áður talað um, ef það er komið. Það er alveg rétt að daglegur póstur og póstútburður er mikilvægur á landsbyggðinni sem annars staðar.

Hins vegar held ég að það þýði ekki fyrir okkur að loka augunum fyrir því að magn pósts er að minnka mjög mikið vegna þess hve mikið dreifist á rafrænan hátt. Við megum ekki loka augunum fyrir þeim nýjungum sem í því felast. Við megum ekki festa okkur í einhverri fortíð. Það má auðvitað spyrja sig að því hvort þörf sé á fimm daga póstútburði ef sáralítið er að til bera út. En til þess, eins og ég sagði áðan, þarf að vera boðið upp á háhraðatengingar og fjarskiptaþjónustu í sveitum landsins sem er sambærileg við það sem er í þéttbýli.

Nú á að fara í útboð á háhraðatengingum og fjarskiptaþjónustu og við skulum vona að það muni ganga eftir, sem ég hef áður lýst hér yfir, að það verði bylting í fjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni. Hvort það verður um þetta leyti á (Forseti hringir.) næsta ári eða eitthvað síðar veit ég ekki. En hvað þetta varðar held ég að menn verði að athuga að póstur berst á annan hátt en með hestum í dag. (Gripið fram í.)