135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

aðild að Evrópusambandinu.

[14:54]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það voru mjög athyglisverð ummæli hv. stjórnarformanns Baugs um helgina og ýmissa annarra forustumanna í viðskiptalífinu um gjaldmiðilsmálin og stöðu Íslands í samskiptum við Evrópusambandið. Stjórnarformaður Baugs fullyrti að við þyrftum að huga að aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það væri langtímalausnin á þeirri stöðu sem upp hefur komið og þróast á alþjóðamörkuðum á síðustu mánuðum og hann nefndi síðustu sex til átta mánuði.

Það er aðallega tvennt sem veldur sérstaklega erfiðri stöðu fjármálafyrirtækjanna í dag. Það er annars vegar alþjóðleg fjármálakreppa sem hefur áhrif á þau eins og önnur fjármálafyrirtæki. Þó er staða okkar íslensku fjármálafyrirtækja í rauninni miklu betri en margra annarra, af ýmsum ástæðum.

Hitt er svokallaður hlutfallsvandi, eins og Sigurjón Árnason, forstjóri Landsbankans, kallaði það, þ.e. að stærð fjármálafyrirtækjanna er orðin með þeim hætti að hlutfallsskekkja er komin upp samanborið við stærð gjaldmiðils Seðlabanka og þjóðarinnar.

Að sjálfsögðu þurfa stjórnmálamenn að bregðast við þessari stöðu. Það er eitt stærsta verkefni stjórnmálanna á næstu missirum og árum að leiða þetta til lykta, eins og t.d. formaður utanríkismálanefndar tók undir í þættinum Vikulokin, hér um helgina. Hver er staða Íslands með sinn gjaldmiðil í framtíðinni? Hvaða leiðir eru til að vinna að því máli?

Það er ljóst eftir þing Viðskiptaráðs um daginn að t.d. er einhliða upptaka evru útilokuð af pólitískum ástæðum. Eina leiðin sem mér finnst vera fær í framtíðinni er að sækja um aðild að sambandinu og myntbandalaginu og koma þeim hlutum þannig fyrir til framtíðar. En áður þurfum við að sjálfsögðu að ná jafnvægi á efnahagslífi innan lands.

En það er sjálfsagt að hefja umræðuna og stefna að því að hafa leitt hana til lykta á næstu missirum þannig að innan fárra ára liggi fyrir hvað sé best og réttast að gera fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar allrar í þessum málum. (Forseti hringir.)