135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að landbúnaðurinn standi nú á miklum tímamótum. Það stuðnings- og öryggiskerfi sem hefur verið byggt upp til að halda hér uppi öflugum landbúnaði og öflugri matvælaframleiðslu nær ekki að mínu mati lengur þeim pólitísku markmiðum sem sett eru. Gríðarleg hækkun á erlendum aðföngum, áburði, kjarnfóðri, fjármagnskostnaður er hár og gríðarlega hátt jarðarverð hér innan lands setur landbúnaði nú verulegar skorður og ekki síst nýliðun í greininni.

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins fjalla hagfræðingar Bændasamtakanna, þau Erna Bjarnadóttir og Davíð Már Kristófersson, um stöðuna í íslenskum landbúnaði og stuðning hins opinbera. Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér þau skrif. Þau velta fyrir sér hvernig standa megi sem best vörð um hagsmuni og fæðuöryggi þjóðarinnar hvað þessa grein varðar. Þetta eru allar þjóðir að skoða núna, ekki síst vegna breyttrar stöðu á matvælamarkaði og kröfunnar um sjálfbæra þróun. Þau spyrja um skilvirkni kerfisins, hvort stuðningur ríkisins komi þar sem honum er ætlað. Þau spyrja fleiri slíkra spurninga.

Frú forseti. Ég tel brýnt að hér verði skipuð nefnd þingflokka og aðila landbúnaðarins, félagasamtaka landbúnaðarins og annarra félagasamtaka um að endurskoða og taka á málum landbúnaðarins. Við viljum hafa hér öfluga landbúnaðarframleiðslu. Við viljum hafa landið í byggð. Við viljum aðstæður sem skapa eðlilega nýliðun í atvinnuveginum. Gallup-könnun frá síðasta ári sýnir að mikill og afdráttarlaus meiri hluti þjóðarinnar vill þetta. Ég tel frekar að pólitíkusarnir hafi sofið á verðinum á undanförnum árum og nú verður ekki beðið lengur. Ég hvet ... (Forseti hringir.) Og verst, frú forseti, er aðgerðarleysið sem mér heyrist hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra vera að boða. Það er kannski það alversta (Forseti hringir.) í þessum efnum.