135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:12]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka hér upp umræðu um skipulag atvinnugreinarinnar miðað við þá umræðu sem verið hefur oft og tíðum á undanförnum mánuðum. Ástæða er til að ætla að þar séu að minnsta kosti hugmyndir uppi um verulegar breytingar eins og fram hefur komið í máli einstakra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Því er fyllsta ástæða til þess að kalla eftir afstöðu þess ráðherra sem fer með þennan málaflokk.

Ég svara þessu fyrir mitt leyti þannig að í fyrsta lagi ber að leggja áherslu á atvinnufrelsi við landbúnað, að atvinnugreinin sé frjáls, að hver maður geti stundað landbúnað, hvaða grein hans sem er og hafi þar starfsemi sína, hvort sem það er kjötframleiðsla, mjólkurframleiðsla eða annað. Það er grundvallaratriði. Að öðrum kosti lenda menn í sömu ógöngunum og við erum komin í í sjávarútvegi þar sem menn gættu ekki að því að virða atvinnufrelsið.

Í öðru lagi þarf að gera breytingar á því sem nú er og frá því sem þróunin hefur verið á síðustu áratugum þannig að hver framleiðandi hafi aukið frelsi til þess að selja afurðir sínar beint, hvort heldur til vinnslu eða beint til neytenda. Menn hafa gengið of langt að mínu viti í að reyra framleiðandann í lög og reglugerðir sem ekki eiga sér skynsamlega stoð í heilbrigðisþættinum.

Í þriðja lagi er það afstaða okkar að stunda eigi landbúnað á Íslandi vegna þess að við þurfum á því að halda sem eyþjóð og getum ekki treyst á aðrar þjóðir eingöngu í þeim efnum. Það þýðir að við verðum að hafa stuðning við atvinnugreinina. Annað er óhjákvæmilegt.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, eigum við að þróa þann stuðning hægt og rólega í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar en varast að taka kollsteypur í þeim efnum.