135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:14]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir að taka upp málefni íslensks landbúnaðar á þingi og þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans, svo langt sem þau ná. Starfsumhverfi íslensks landbúnaðar er grafalvarlegt málefni. Sú staðreynd að verð á áburði og fóðri hefur hækkað um 50–80% er ógnvænleg, ekki síst á þeim tímum þegar ríkisstjórnin reynir, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, að reyna að ná þjóðarsátt í kjarasamningum.

Hvað mun það þýða ef verð á áburði og fóðri hækkar um 50–80%? Verð á lambakjöti, dilkakjöti, mun hækka um 20%. Verð á mjólk mun líklega hækka verulega líka. Einhver verður að taka á sig þær kjaraskerðingar nema ríkisvaldið komi nálægt þeim málum. Eru það bændur sem eiga að taka á sig kostnað af því að verð á þessum aðföngum stórhækkar eða eru það neytendur?

Ég kalla eftir því, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra gefi okkur svör um hvað hann hyggist gera í ljósi þeirra aðstæðna að aðföng til bænda hafa hækkað svo sem raun ber vitni. Hæstv. ráðherra hlýtur að ætla að gera eitthvað í þeim málum. Nú eru í gangi kjarasamningar við launamenn og það er ljóst að á þessum tímum verða bændur ekki einir um að taka á sig kjaraskerðingu. Hér er um hápólitískt mál að ræða sem við þurfum að fá svör við: Hvað ætlar hæstv. landbúnaðarráðherra að gera í þessum málum til hagsbóta fyrir bændur og ekki síst til hagsbóta fyrir íslenskan almenning?