135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:24]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við í Frjálslynda flokknum viljum tryggja að búseta haldist í sveitum landsins. Við viljum standa með bændastéttinni að því að tryggja búsetuna. Við höfum ævinlega talið mikil verðmæti í því fyrir íslenska þjóð og að það muni miklu máli skipti fyrir okkur í framtíðinni að viðhalda byggð í landinu.

Íslenska bændastéttin framleiðir vörur sem íslensku þjóðinni líkar vel. Það getur vissulega verið ágreiningur um verðmyndunina og mönnum kann stundum að finnast varan dýr en við skulum ekki gleyma því, hæstv. forseti, að við búum í landi þar sem ekki eru sömu aðstæður til landbúnaðar, vegna veðurfars og hnattstöðu okkar, og í öðrum löndum.

Það er alvarlegt ef bændur horfa fram á aukinn kostnað við áburðar- og fóðurkaup. Það mun að sjálfsögðu koma að einhverju leyti fram í verði vörunnar en það gerist líka í öðrum löndum. Það kann að fara svo, hæstv. forseti, að íslensk framleiðsla verði betur samkeppnisfær í verði við framleiðslu landbúnaðar í öðrum löndum en verið hefur.

Við í Frjálslynda flokknum viljum gjarnan stuðla að breytingum í landbúnaði, einkum að því að styrkir færist í meira mæli yfir í búsetu-, byggða- og landnýtingarstyrki heldur en verið hefur á undanförnum árum. En þær breytingar viljum við gera í sátt við bændur og landbúnaðinn.