135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:26]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hér hefur farið fram og mér finnst hafa verið góð. Sérstaklega hefur vakið athygli í umræðunni hvernig draugum var blandað inn í málið sem ég tel skipta nokkru máli vegna þess að það gæti vel verið, ef skyggnigáfan væri fyrir hendi, að ekki þyrfti að fara langt aftur í sögu þingsins til að heyra þær raddir meðal flokksbræðra hv. þm. Gunnars Svavarssonar að verr skyldi gengið að íslenskum landbúnaði og harðar að honum búið. En það er ánægjulegt að þær áherslur hafi breyst. Menn rísa ekki upp núna og tala á móti framleiðslustyrkjum eða á móti stuðningi við hefðbundinn landbúnað. Það er mikið ánægjuefni.

Hitt er ákveðið áhyggjuefni, sem tengist kannski þessum draugum líka að sá draugur skuli komast inn í hugmyndirnar um aðgerðir til handa launafólki að ráðist að tollum og aðflutningsgjöldum á matvöru. Það er nefnilega þannig að aðrar þjóðir bjóða þetta ekki fram í limbói heldur gefa það eftir í alþjóðlegum samningum. Við höfum enga ástæðu til að bakka að tilefnislausu með það innflutningsverð sem landbúnaðurinn nýtur. Vilji ríkisstjórnin koma til móts við verkalýðshreyfinguna varðandi matvælaverð, sem sjálfsagt er að hún geri, skal hún gera það með aðgerðum sem koma jafn vel út fyrir innlendan sem erlendan varning, með lækkun matarskatts. Það er mun vænlegri leið og í samræmi við þann stjórnarsáttmála sem hér var vitnað til áðan. Ég hvet hæstv. landbúnaðarráðherra til að skoða það.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, að þetta voru aðeins hugmyndir hjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins varðandi það að kaupa allan kvótann af kúabændum og menn tóku undir að það mætti skoða. En það liðu ekki margir dagar þangað til formaður Bændasamtakanna hafði lýst því yfir að hann afneitaði þessu algerlega og teldi þetta algerlega ófæra leið. Ég bíð eftir sambærilegri yfirlýsingu frá hæstv. landbúnaðarráðherra.