135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framtíðarstuðningur stjórnvalda við hefðbundinn landbúnað.

[15:28]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna umræðunni sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið að mínu mati verið ákaflega málefnaleg. Þar stendur kannski tvennt upp úr.

Í fyrsta lagi tel ég að hér hafi komið fram mjög mikilvægur almennur stuðningur við að við héldum áfram öflugum íslenskum landbúnaði. Það er afskaplega mikilvægt að þetta liggi fyrir með þeim almenna hætti sem greinilega kom fram í þessari umræðu. Stundum hefur verið látið í veðri vaka að miklar pólitískar væringar væru um stuðning við landbúnaðinn. Ég held að svo sé ekki. Ég hef ekki orðið var við annað en að í almennri umræðu sé mikill stuðningur við að við eigum öflugan landbúnað.

Vegna þess sem hér hefur komið fram er ástæða til að árétta að við eigum góðan landbúnað sem framleiðir góðar vörur. Sú framleiðsla einkennist ekki af notkun eiturefna heldur byggist hún á heilnæmi, hreinleika og möguleikum íslensks landbúnaðar. Það er mikil ástæða til að leggja áherslu á þetta. Við tökum eftir því að íslenskir neytendur tala sínu máli í þessum efnum. Það fer ekkert á milli mála að meðal íslenskra neytenda er mikill áhugi á að kaupa íslenskar landbúnaðarvörur. Íslenskir garðyrkjubændur hafa t.d. sérmerkt sínar afurðir og það kallar fram mjög jákvæð viðbrögð neytenda. Við vitum að nokkur innflutningur er á erlendum landbúnaðarvörum. Neytendur kjósa íslenskar landbúnaðarvörur (KolH: Við viljum meira lífrænt.) almennt umfram innfluttar. Það skiptir miklu máli.

Ég er ósammála því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um. Hún stillti því þannig upp að hér væri um að ræða eiturbras í kringum íslenskan landbúnað. Svo er ekki. Við viljum styðja við bakið á lífrænum landbúnaði en sá landbúnaður sem við höfum byggt upp er heilnæmur og byggist á því að menn geti hagrætt. Það er ekki bara spurning um hve mikla peninga við leggjum í þessa grein heldur líka hvernig við sköpum þessari atvinnugrein góð rekstrarskilyrði þannig að hún geti lifað, dafnað, hagrætt og stækkað.