135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks.

307. mál
[15:31]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 25/1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks. Hv. menntamálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín fulltrúa menntamálaráðuneytisins Guðnýju Halldórsdóttur og Þórhall Vilhjálmsson, sem fóru yfir tilurð og efni frumvarpsins. Einnig kom á fund nefndarinnar Gunnlaugur H. Jónsson frá Háskóla Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að lög nr. 25/1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks, falli brott. Upphaf að þessari tillögu má rekja til þess að nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins taldi að ákvæði 6. gr. laganna uppfyllti ekki kröfur sem 40. gr., sbr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, setur um skattlagningarheimildir. Enn fremur bárust fyrirspurnir frá Eftirlitsstofnun EFTA um hver viðhorf íslenskra stjórnvalda til ákvæða 1., 5. og 6. gr. laganna væru og hvort þau teldu að þau samræmdust 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Því var talið rétt að fella lögin úr gildi. Ekki er ágreiningur í þessu máli milli menntamálaráðuneytis og Háskóla Íslands en fulltrúar háskólans lýstu þó yfir áhyggjum af skertum tekjum skólans og ítrekuðu að mikilvægt væri að halda starfsemi Almanakssjóðs gangandi. Með brottfalli laganna verður Háskóli Íslands af þeim tekjum sem lögin veittu honum á grundvelli einkaleyfisins. Tekjur þessar renna í Almanakssjóð sem stýrt er af háskólaráði og eru síðan nýttar til eflingar stærðfræði, til að mynda útgáfu tímarita á sviði stærðfræði, stærðfræðilegri eðlisfræði og stjörnufræði. Eru tekjur sjóðsins áætlaðar um 1,7 millj. kr.

Að mati nefndarinnar hefur brottfall laganna það ekki í för með sér að Háskóla Íslands beri að láta af útgáfu almanaks. Kom það jafnframt fram í máli fulltrúa Háskóla Íslands að skólinn hyggst halda áfram útgáfu almanaksins hér eftir sem hingað til. Nefndin telur einnig að rík öryggis- og samræmissjónarmið mæli með áframhaldandi útgáfu almanaks af hálfu Háskóla Íslands. Enn fremur telur nefndin að Háskóli Íslands hafi, á grundvelli 18. gr. laga nr. 41/1999, heimild til gjaldtöku fyrir gerð almanaks. Verði kostnaði Almanakssjóðs því mætt eftir því sem við á, á grundvelli þeirrar heimildar sem og á grundvelli samnings menntamálaráðuneytis og háskólans, dagsett 11. janúar 2007, sem fulltrúar menntamálaráðuneytis greindu nefndinni frá.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, Höskuldur Þórhallsson, Illugi Gunnarsson og Katrín Júlíusdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur og hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.