135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[15:50]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að leggja fram þetta frumvarp sem mér sýnist hafa þann tilgang að fella brott gjaldheimildir út af innritunar- og efnisgjöldum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann og 1. flutningsmann frumvarpsins að því hvort hann hafi reynt að kostnaðarmeta þær breytingar sem hér eru lagðar til, þ.e. þann kostnað sem til fellur vegna málsins eða þær tekjur sem hið opinbera verður af við það að skólum verði óheimilt að krefjast þeirra fjármuna sem núverandi löggjöf gerir ráð fyrir að þeim sé heimilt að innheimta.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þingmann að því hvort flutningsmenn þessa frumvarps eru þeirrar skoðunar að sömu ákvæði eða sömu reglur eigi að gilda um einkarekna framhaldsskóla.

Ég nefni sem dæmi að minn gamli skóli, Verslunarskóli Íslands, og Menntaskólinn Hraðbraut hafa innheimt mun hærri gjöld af nemendum sínum en aðrir framhaldsskólar. Er hugmyndin sú hjá hv. þingmanni og flutningsmönnum að það bann sem þetta frumvarp mælir fyrir um hvað varðar gjaldtökuna, nái einnig til slíkra skóla eða eingöngu þeirra sem reknir eru einvörðungu af hinu opinbera?