135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[15:56]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir að fjalla nokkuð jákvætt um efni þessa frumvarps, leyfi ég mér að segja, og skynja það þannig að hann hafi ekki breytt um skoðun hvað efni þess varðar frá því að hann var í framboði fyrir síðustu alþingiskosningar. Ástæðan fyrir því að ég vakti sérstaklega máls á afstöðu Samfylkingarinnar er auðvitað sú að ég bind vonir við það að Samfylkingin beiti sér fyrir framgangi þessa máls í ríkisstjórninni.

Þingmaðurinn spyr hvort við höfum leitt hugann að því hvernig eigi að skilgreina námsgögn í þessu samhengi. Það er ekki verkefni löggjafans að gera það og við munum auðvitað ekki gera það í lagatextanum sjálfum. Hins vegar bendum við á að hér er um að ræða sambærilegar skilgreiningar og eru í gildandi grunnskólalögum. Það hefur ekkert vafist fyrir mönnum að praktísera það varðandi grunnskólann hvað eru námsgögn og hvað eru ekki námsgögn í þessu samhengi. Ég sé því ekki fyrir mér að það eigi að verða neitt sérstakt vandamál hvað framhaldsskólann varðar heldur. Hvort tölvur eru þar inni eða ekki er ekki viðfangsefni löggjafans. Við munum væntanlega ekki skrifa það nákvæmlega í lagatexta hvað eru námsgögn og hvað eru ekki námsgögn, heldur er það viðfangsefni þeirra sem fást við málið á vettvangi.

Þingmaðurinn vakti líka máls á því sem hann kallar einhvers konar lágmarksinnritunargjöld, að stjórnendur skóla hefðu gjarnan viljað fá þau. Það er auðvitað bara spurning um fjármögnun þessa verkefnis. Þetta viðfangsefni er eftir sem áður til staðar og hugmynd okkar gengur út á það að þessi gjöld verði felld niður í framhaldsskólunum og við erum þess vegna ekki að tala um að slík innritunargjöld verði við lýði, hvort sem það er einhver lágmarksupphæð eða málamyndaupphæð. Hins vegar er auðvitað fróðlegt að vita hvort það var hugsunin í (Forseti hringir.) stefnu Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar.