135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[16:02]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Komið er fram frumvarp til laga um niðurfellingu á námskostnaði í framhaldsskóla. Með leyfi forseta segir í greinargerðinni að með samþykkt frumvarpsins yrði stigið mikilvægt skref í átt að auknu jafnræði til náms, óháð efnahag.

Þetta er mjög gott og gilt. En ég finn mig knúna til að vekja athygli á því að þetta tekur ekki á þeim þætti sem veldur mestum mismun hvað kostnað til framhaldsskólanáms varðar. Þeir nemendur sem ekki eiga kost á öðru en að sækja framhaldsskólanám utan heimabyggðar standa óneitanlega höllum fæti. Kostnaður sem verður af því að þurfa að stunda nám sitt annars staðar gefur skakka mynd miðað við jafnaldra sem geta stundað skóla heiman frá sér. En vissulega er komið til móts við þennan ójöfnuð með dreifbýlisstyrknum, sem við köllum í daglegu tali. En betur má ef duga skal. Það hafa hreinlega ekki allir foreldrar efni á því að senda börn sín til framhaldsskólanáms. Þar með takmarkast möguleikar allra þeirra barna til náms. Aukið jafnræði til náms tengist nefnilega ekki einungis fjármálum, eða fjárhagslegri stöðu einstaklinga heldur einnig aðstöðumun.

Við framsóknarmenn teljum mjög brýnt að skoða leiðir til að koma til móts við slíkan aðstöðumun og gefa þannig fleirum kost á því að stunda framhaldsnám í heimabyggð að minnsta kosti til 17 eða 18 ára aldurs. Ég þekki mjög vel til þar sem börn þurfa að fara að heiman 15–16 ára ætli þau sér að stunda nám. Margir virðast reyndar þola það mjög vel og þroskast og dafna við að standa svo ungir á eigin fótum. En ekki eru allir svo lánsamir og mér finnst ég verða vitni að allt of mörgum tilvikum þar sem ungmennin eru hreinlega ekki tilbúin til að fara að heiman. Þau byrja í námi að hausti og snúa svo heim aftur eftir einn til tvo mánuði og leita út á vinnumarkaðinn. Staðan á vinnumarkaðnum er hins vegar víða þannig að ekki er mikla vinnu að fá fyrir þennan aldurshóp. Slíkar aðstæður verða ekki til þess að bæta sjálfsmynd þessara einstaklinga og gera þannig lífið hjá sumum mjög snúið.

Ég er sannfærð um að hægt er að finna lausnir á þessum málum. En til þess þurfum við að skoða framhaldsskólakerfið svolítið víðar. Við þurfum að horfa á það í víðara samhengi og hvetja til samvinnu milli framhaldsskóla og milli skólastiga. Skoða þarf einstök svæði og koma til móts við mismunandi þarfir til þess að þau geti staðið við sérkenni sín. Það er mjög mikilvægt að framhaldsskólarnir hafi áfram sín sérkenni. Ég er hrædd um að umhverfi framhaldsskólanna eins og það er nú, þar sem þeir eru í samkeppni um nemendur, geri það að verkum að erfitt sé að móta sveigjanlegra skólakerfi. En í krafti samvinnu og vilja til árangurs má ná miklu lengra. Ég tel það hreinlega hlutverk okkar hér að sjá til þess að ramminn henti þeim markmiðum og þeirri starfsemi sem til er ætlast.

Ég fagna því að hér komi fram vilji til að jafna stöðu einstaklinga til náms. Það er eitt af grundvallaratriðunum í þjóðfélaginu. Ég bendi jafnframt á að mesta ójafnræðið liggur í aðstöðumun hvað búsetu varðar. Það þarf að jafna þann mun eins og kostur er. Á seinni stigum á síðan að skoða kostnað vegna námsgagna.