135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri.

116. mál
[16:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingmáli á þskj. 117, 116. mál, tillaga til þingsályktunar um sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Björn Valur Gíslason sem sat sem varamaður á þingi fyrr í vetur og lagði þá málið fram en flutningsmenn ásamt honum eru fjórir aðrir hv. þingmenn úr þremur þingflokkum, það eru hv. þm. Þuríður Backman, Birkir J. Jónsson, Höskuldur Þórhallsson og Þorvaldur Ingvarsson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar undirbúning þess að koma á fót á Akureyri sjávarlíffræðisafni og rannsóknarsetri um auðlindir og lífríki hafsins, í samvinnu við Háskólann á Akureyri og sveitarfélög við Eyjafjörð.“

Það hefur alllengi verið uppi áhugi í þessum efnum á viðkomandi svæði og nú upp á síðkastið hefur áhugamannahópur unnið talsvert starf og eru röksemdir fyrir þessari tillögu sóttar í það og er hún hugsuð til stuðnings því starfi og til þess að kalla eftir stuðningi Alþingis við að haldið verði áfram með þessi áform. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi sjávarauðlindarinnar, mikilvægi hafsins fyrir Íslendinga, fyrir þjóðarbúskapinn, afkomu þjóðarinnar og menningu, og tilgangur með stofnun sérstaks rannsóknarseturs um auðlindir og lífríki sjávar yrði margþættur og tengdist þessu öllu saman. Það er annars vegar rannsóknarstarfið, en það eru ýmsir þættir sem þarf að rannsaka betur. Hér eru nefndar ýmsar hugmyndir í þeim efnum svo sem eins og áhrif hafstrauma við landið, ástand hafsbotnsins á landgrunninu, kóralsvæði, hverastrýtur sem nægt er af fyrir norðan land og inni á Eyjafirði og ýmis annars konar náttúrufyrirbrigði og náttúrusvæði á hafsbotni, einnig að rannsaka áhrif veiðarfæra á lífríki sjávar, loftslagsbreytingar, breytingar á hitastigi og lífríki sem þeim tengjast o.s.frv. Þá má einnig nefna frumrannsóknir á framleiðslu svifs og átu botndýra og gróðurs og þau áhrif sem umgengni manna um sjávarauðlindina eða um hafgeyminn hefur á þessa þætti.

Að sjálfsögðu yrði eðlilegt að vinna þessar rannsóknir með og í góðu samstarfi við Hafrannsóknastofnun sem er með allmikla starfsemi norðan heiða og reyna að fylla í og bæta við og efla þær rannsóknir sem þar og annars staðar eru unnar í dag. Ég held að almennt sé viðurkennt að það sé kostur að laða fleiri úr háskóla- og vísindasamfélaginu að slíkum verkefnum og það verði allt saman til stuðnings því mikilvæga starfi sem þegar er unnið.

Ég vil nefna einn sérstakan þátt í þessum efnum sem eru rannsóknir á framburði jökuláa á lífríki hafsins en vísbendingar eru um það að áhrif þess þáttar, þ.e. framburðarins, á frumframleiðslu sjávar, svifþörunga og síðan það lífríki sem á þeirri framleiðslu byggir séu mun meiri en menn hafa áður talið og þar með sá þáttur afdrifaríkari fyrir viðkomu t.d. þorskstofnsins og hrygninguna og uppvöxt seiða en menn hafa viljað viðurkenna.

Hér eru aðeins talin örfá dæmi og nefnd þau verkefni, stór og smá, sem næg eru og yrði ekki skortur á væri farið af stað eða þegar farið verður af stað, vil ég leyfa mér að segja, með þessa starfsemi. Það er einnig mikilvægt sjónarmið, sem engar dulur eru dregnar á í þessari tillögu, að efla Háskólann á Akureyri og það vísindastarf sem þar er unnið norðan heiða og áhugahópurinn leggur mjög mikið upp úr því að laða að þessu verkefni sem gengur undir nafninu „Heimur Norðurhafa“ eða á ensku „Arctic Ocean World“, allar helstu stofnanir sem eru með starfsemi á svæðinu og sumar hverjar með höfuðstöðvar hér syðra en útibú og starfsemi á sínum vegum fyrir norðan.

Akureyri er norðurslóðabær og þar hefur verið að byggjast upp umtalsverð miðstöð á sviði norðurslóðastarfsemi þar sem er Háskólinn á Akureyri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og starfsemi aðila eins og Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og fleiri aðila í tengslum við þær. Allir þessir þættir samanlagðir munu styrkja hver annan, þ.e. sjávarlíffræðirannsóknarsetur og miðstöð og safn mundi styrkja starfsemi skólasamfélagsins og vísindastofnananna og auðvitað öfugt, þangað mundu þær sækja sinn faglega og fræðilega styrk einkum og sér í lagi.

Hér yrði um að ræða eitt af sérsöfnum landsins, mikilvægt safn sem mundi nýtast eftir atvikum öllum landsmönnum í krafti sérhæfingar sinnar til fræðslu og upplifunar um hafið og lífríki landsins, mundi laða að erlenda ferðamenn og verða mikið aðdráttarafl í þeim efnum, mundi vera vettvangur fyrir nemendur á öllum skólastigum og þannig mætti áfram telja. Að sjálfsögðu ber að taka það fram að þetta er ekki hugsað til höfuðs neinni þeirri starfsemi sem til staðar er í landi eða þarf að byggjast upp eftir sem áður og ég vil í því sambandi alveg sérstaklega nefna Náttúrufræðisafn Íslands, sem auðvitað er til mikillar skammar að skuli ekki vera risið og mér sem náttúruvísindamanni svíður alltaf að þurfa að standa í þessum sporum í ræðustóli hér ár eftir ár og gangast við þeirri hneisu sem það er fyrir þjóðina að hafa náttúrugersemar sínar ofan í kössum að mestu leyti og ekki aðgengilegar hvorki þjóðinni né vísindasamfélaginu eða öðrum sem þeirra mundu njóta ef við ættum okkur myndarlegt náttúrufræðisafn en að vísu skilst mér að búið sé að taka af því lóðina sem fyrirhuguð var hér í Vatnsmýrinni en það er önnur saga. Sú þrautaganga er með miklum endemum og ekki vansalaust að ekki skuli hafa tekist að koma því máli af stað, sennilega þarf eitthvert stórafmæli eða einhvern slíkan atburð sem menn geta þá hengt það á og þá verði loksins gerð gangskör að því.

Aftur að viðfangsefninu og ég vil þá sérstaklega nefna staðsetninguna, þ.e. við Eyjafjörð og gjarnan við Pollinn á Akureyri þar sem menn sjá fyrir sér einstakar aðstæður til að vera með slíkt safn. Auðvelt væri að sjá það fyrir sér að safn um sjávarlíffræði væri haft að hluta til neðan sjávar og þar mætti sýna fiska í náttúrulegu umhverfi, sýna fisktegundir, sýna eldi, sýna hafsbotninn, gróður og manngerðar eftirlíkingar eftir atvikum af ýmsum náttúruundrum í hafinu. Þar væru og eru einhverjar bestu aðstæður sem hugsast gætu til þess að byggja slíkt upp og þar af leiðandi held ég að leitun sé að betra umhverfi en þarna er fyrir slíka starfsemi og í kringum hana með vísan til þess sem ég hef sagt áður um háskólasamfélagið og vísindasamfélagið á Akureyri og við Eyjafjörð og umgjörðina alla.

Að sjálfsögðu þarf síðan að laða til samstarfs um næstu skref í verkefninu alla sem því eiga að tengjast. Þar vil ég nefna fræðimannasamfélagið og stofnanir sem hér hafa verið nefndar, sjómenn, útgerðarmenn og aðila úr sjávarútvegsgreininni, sveitarstjórnarmenn að sjálfsögðu og síðan áhugafólk um söfn og uppbyggingu ferðamennsku og annað í þeim dúr. Þar sem vel hefur til tekist á undanförnum árum hefur tekist giska vel að sameina marga þætti þar sem menn eru að bjarga þjóðarverðmætum, að byggja upp atvinnustarfsemi og búa til heillandi umhverfi, laða að ferðamenn og í raun lyfta menningarstigi viðkomandi svæða í leiðinni. Ég leyfi mér t.d. að nefna og vona þá að á engan sé hallað þó að nefnd séu Síldarminjasafnið á Siglufirði, Vesturfarasetrið á Hofsósi og Hvalamiðstöðin á Húsavík svo tekin séu dæmi af nálægu svæði.

Ég vona að mér hafi tekist að fara yfir það helsta sem telja má til röksemda fyrir því að verkefnið sé gott og gilt og því beri að veita brautargengi. Ég veit að öflugur hópur áhugamanna er til staðar norðan heiða til þess að taka fagnandi öllum stuðningi sem verkefnið fær og þar hafa menn hugsað sér sem næstu skref að kynna það, leita liðsinnis hjá bæði stjórnvöldum og fagaðilum og einkaaðilum og öllum þeim sem lagt gætu þessu lið og ég trúi að þeir verði margir sem sjá að þarna er um að ræða jákvætt og gott mál sem sjálfsagt er að veita brautargengi.