135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri.

116. mál
[16:43]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að þetta mál er gott og gilt en ég kem hingað upp í andsvar vegna ákveðinna ábendinga sem ég vil koma á framfæri.

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að það er nýbúið að setja á fót Rannsóknafræðasetur Norðausturlands á Húsavík, eins og fram hefur komið, við hlið Náttúrustofu Norðausturlands með áherslu á lífríki sjávar og sjávarspendýr. Að því verkefni kemur m.a. Háskóli Íslands sem er samstarfsaðili á því setri.

Ég vil undirstrika, og það er kannski meginþunginn í máli mínu, að við erum nýbúin að gera rannsóknarsamning við Háskólann á Akureyri, m.a. á grundvelli þeirra rammalaga sem gilda um háskóla að þeir séu sjálfstæðir og það eigi að halda þar uppi öflugu akademísku starfi sem og rannsóknarstarfi. Á þeim forsendum gerðum við þennan samning við Háskólann á Akureyri sem er háskóli í mikilli sókn og í þeim rannsóknarsamningi, til hliðar var líka gerður samningur við LÍÚ, var sérstök áhersla lögð á sjávarútvegsfræði af því að Háskólinn á Akureyri vill undirstrika sérþekkingu sína á því sviði og við eigum að styðja hann í því.

Hins vegar er það líka þannig að það stendur ekki til og það er ekki almennur vilji af minni hálfu að fjölga hér sérhæfðum rannsóknarstofnunum heldur eigum við miklu frekar að reyna að stuðla að því að efla þær stofnanir sem fyrir eru og auka tengsl háskólanna og rannsóknarstofnana sem fyrir eru í landinu. Ég held að það sé brýnt að við gerum það og ég nefni t.d. Hvanneyri og aðra háskóla. Þess vegna segi ég: Í samræmi við markmið um sjálfstæða háskóla tel ég mikilvægt að Háskólinn á Akureyri leggi sjálfur þessar áherslur og það komi ekki allt að því miðstýrð ákvörðun héðan frá hinu háa Alþingi í þá veru hvað háskólinn eigi að gera. (Forseti hringir.) Ég tel mikilvægt að háskólarnir (Forseti hringir.) haldi sjálfstæði sínu og það sé þeirra að móta að mestu námsframboð og námstækifæri.