135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:11]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar bara til að þakka flutningsmönnum þessa máls í andsvari, þakka fyrir þessa fínu þingsályktunartillögu. Það er rétt sem kom fram hjá frummælanda, hv. þm. Ellerti B. Schram, að þetta er mjög mikilvægt mál.

Á sínum tíma tók heilbrigðisnefnd Alþingis sig saman og flutti þingmál sem skilaði sér í skýrslu til forsætisráðherra um bætta lýðheilsu. Því máli hefur ekki verið fylgt nægilega vel eftir. Það þarf að fylgja málum vel eftir á þinginu til að farið verði út í þetta. Mig langar til að nefna það af því að ég hef áhuga á aukinni hreyfingu og bættri heilsu, að þegar ég vann að hreyfiseðlamálinu, sem liggur nú fyrir þinginu, kynnti ég mér að annars staðar á Norðurlöndunum hefur hreyfing barna í verið aukin í námskrám, í almennum tímum, þ.e. ekki í sérstökum íþróttatímum heldur í almennum kennslustundum.

Það væri áhugavert að skoða slíkt í tengslum við umfjöllun um þetta mál. Það hefur skilað sér vel í aukinni hreyfingu barna í nágrannalöndum okkar. Mig langaði að nefna þetta hérna og þakka þeim hv. þm. Ellerti B. Schram og Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir þetta mál. Ég tel mjög mikilvægt að það verði afgreitt frá menntamálanefnd, sem ég geri ráð fyrir að fari í málið og jafnvel að heilbrigðisnefnd gerði um það umsögn.