135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:19]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get í rauninni tekið undir hvert orð sem hv. þingmaður segir hvað þetta varðar. Það má líka segja að hann sé gott dæmi um það hvernig menn eigi að hegða sér, vera iðandi af lífi fram yfir fimmtugt að minnsta kosti. Það er alveg rétt, sem hér kemur fram, að við þurfum að breyta viðhorfinu, við þurfum að stuðla að því, m.a. í gegnum skólakerfið, að fjölga hreyfistundum og auka hreyfingu barna okkar.

Ég vil geta þess, og undirstrika það sem ég sagði áðan, að allar faggreinar innan skólanna vilja fá fjölgun stunda í námskrá. Það er ágætt, það er heilbrigt, það er ekkert óeðlilegt að allir beri ákveðinn metnað í brjósti varðandi sína tilteknu námsgrein. Það er líka sjálfsagt og eðlilegt að beina þeim tilmælum sem hér hafa komið fram, þeim eðlilegu viðhorfum sem uppi eru í samfélagi nútímans, þeim eðlilegu áhyggjum sem við höfum af minni hreyfingu barna og meiri offituvanda en áður hefur verið, inn í þá vinnu sem á sér stað í ráðuneytinu hvað varðar námskrár og námskrárvinnu. Það hefur verið viðmið okkar að auka sjálfstæði skóla og svigrúm þeirra til að meta hvaða stefnu þeir vilja framfylgja og hvað þeir vilja hafa að leiðarljósi í stefnu sinni. Ég held að það muni leiða til þess að við sjáum fram á aukningu í íþróttum og hreyfingu.