135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:20]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að ekki er mikill skoðanamunur milli mín og hæstv. ráðherra. Ég vil taka fram að ég held því ekki fram að minn lífsferill sé eitthvað til fyrirmyndar en sem betur fer er ég enn við góða heilsu og það er m.a. því að þakka að ég hef haft vit á því að hreyfa mig í gegnum tíðina.

Þetta er spurning um lífsstíl, að tileinka sér hreyfingu nánast frá fæðingu. Við vitum að vandamálin eru síður til staðar í leikskólunum vegna þess að þá eru börnin enn ung og iðandi og af náttúrulegum ástæðum hreyfa þau sig meira. En þegar kemur að því að börnin okkar verða unglingar þá er það sjónvarpið, tölvan, síminn, iPod og allt það. Þau ráða því þá líka frekar sjálf hvað þau borða og það er þá sem vandamálin byrja. Ég held að það hljóti að vera skilningur á því innan Stjórnarráðsins og í skólunum að leggja þurfi ríka áherslu á að það sé einn af grunnþáttum skólaskyldunnar að unga fólkið, börn og unglingar, temji sér reglulega hreyfingu, aga og einbeitingu þegar að því kemur að hugsa um líkama sinn. Eins og ég sagði áðan er einskis virði að læra til bókar og geta allt mögulegt. Ef heilsan er ekki í lagi er ekkert annað í lagi.