135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:27]
Hlusta

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er flutt, hún er tímabær. Við höfum ekki gert nóg af því að hvetja börnin okkar til hreyfingar. Ég er sammála tillögunni, börn og unglingar hreyfa sig ekki nóg, kyrrseta er allt of algeng. Íslensk ungmenni hreyfa sig minna en áður var og því valda helst breyttar þjóðfélagsaðstæður. Við sem eldri erum stunduðum okkar leiki, spiluðum brennibolta, fórum í yfir og hvaðeina sem við gerðum okkur til skemmtunar, en nú sitja börn við sjónvarp og tölvu. Börn eru ekki fyrr komin heim úr skólum en þau fara beint í tölvuna, beint á netið. Þetta er orðið vandamál hjá okkur, offita verður æ algengara vandamál. Hvað er til ráða?

Ýmsir kvillar fylgja offitu og stærsti þátturinn er hjarta- og æðasjúkdómar sem eru mikið vandamál. Í dag látast 700 Íslendingar á ári úr hjarta- og æðasjúkdómum, tveir á dag. Er ekki kominn tími til að vekja athygli á þessu? Við verðum að bregðast við. Við verðum að bregðast við með forvörnum og það gerum við best með því að taka á þessum málum strax í grunnskóla. Þegar hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir ræddi nú í vetur um grunnskólafrumvarpið, sem hæstv. menntamálaráðherra lagði fram, talaði hún um að heilinn í börnunum okkar væri eins og svampur sem stanslaust síast inn í. Ég er því mjög ánægð með þá tillögu að stuðlað verði að aukinni hreyfingu og að skólarnir hafi sjálfstæði um það hvernig þeir fara með það mál. Eins og hæstv. menntamálaráðherra kom inn á hér rétt áðan eru þessi mál tekin föstum tökum í leikskólum hér á landi, leikskólarnir á Akranesi eru í mjög góðum málum hvað þetta varðar og láta börnin hreyfa sig reglulega með svokallaða hreyfistefnu.

Offita er heilsuvandamál framtíðarinnar og við verðum að horfast í augu við það og við verðum að bregðast við, hvetja fólk til að hreyfa sig meira. Við verðum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Á þessu ári halda Hjartaheill, sem eru landssamtök hjartasjúklinga, upp á 25 ára afmæli sitt. Hvar erum við stödd í dag? Við erum enn að berjast við þennan illvíga sjúkdóm sem leggur flesta Íslendinga að velli.