135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:31]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er flutt af hv. þm. Ellerti B. Schram og Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Hér hefur svo tekið til máls einn Skagamaður í viðbót þannig að þetta verður kannski bara málefni ÍA og KR að leysa þessi hreyfivandamál í landinu. Ég verð þó að viðurkenna að ég er ekki jafngóð fyrirmynd eða gott dæmi og hv. þm. Ellert B. Schram hvað varðar holdafar eða hreyfingu. Ég verð að búa við það að vera einn af þeim gömlu hundum sem erfitt er að kenna að sitja eins og hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni.

Ástæðan fyrir því að ég kem upp er að ræða þetta mál aðeins út frá þeim hugmyndum sem hér eru, að færa það inn í námskrá grunnskólanna og skoða hvaða leiðir aðrar eru hugsanlegar. Ég vil ekki síður vekja athygli á að samhliða allri umræðu um heilsurækt og hreyfingu, offituvandamáli og öðru slíku, er annað vandamál sem er á hinum endanum á spýtunni en það er anorexían. Þess vegna þarf að fara fram með mikilli gát í allri umræðu, að búa ekki til ný vandamál þegar við förum fram með heilsuátak. Ég veit klárlega að hv. tillöguflytjendur Ellert B. Schram og Ragnheiður Ríkharðsdóttir eru ekki að með neina hreyfifordóma eða íþróttafordóma eins og maður stundum verður var við, heldur vilja fyrst og fremst efla hreyfingu almennt.

Komið hefur fram í umræðunni — og ég held að það sé það sem skiptir mestu máli, að ræða á um offitu út frá hreyfingu en ekki síður fæði. Auðvitað þarf að hjálpa þeim sem glíma við þetta vandamál, að leiðbeina þeim varðandi fæðuval og þar gegna skólarnir aftur gríðarlega miklu hlutverki. Eins og réttilega hefur verið bent á þá stendur leikskólinn sig hvað best varðandi hreyfingu og fæði. Grunnskólarnir koma sífellt betur inn í það verkefni með skólamáltíðum, með því að þróa þær áfram. Sjá þarf til þess að fjölbreytt og hollt fæði sé í skólunum og gefa góðar leiðbeiningar um hvernig haga eigi mataræði. Við eigum auðvitað að geta haft áhrif í þá veru að viðhorf breytist og lífsstíllinn verði almennt jákvæðari. Ég held að vísu að þar skipti mjög miklu máli að tala ekki um þetta sem íþróttir eða íþróttatíma heldur almennt sem hreyfingu, að grípa hvert tækifæri á skólatíma til að hreyfa sig, nýta frímínútur og fara út og hreyfa sig. Íþróttaskólar eru komnir inn í skólana í tengslum við skóladagvist eða frístundaskóla þar sem stuðlað er að hreyfingu og ég held að menn eigi að skoða það almennt.

Við þurfum líka að tryggja aðgengi að íþróttum. Í greinargerð með frumvarpinu er réttilega bent á að þó að áætlaðar séu þrjár kennslustundir í íþróttum í skóla á viku auk eins tíma í sundi er oft veittur afsláttur af því. Annars vegar er það þannig að vegna aðstæðna er oft skipt í minni hópa og þá svindla menn aðeins á þessum tíma. Það gera menn einkum varðandi sundið. Það er kennt á námskeiðum eins og réttilega kemur fram í greinargerð með þingsályktuninni. Kannski eru kenndir 20 tímar en kenna hefði átt sund í 36 vikur og menn bæta það ekki upp.

Það er ekki síður vandamál en þetta með skólana að hafa ekki aðstöðu til að kenna íþróttir. Ýmsar ástæður liggja þar að baki, t.d. vegna tímaúthlutana og hópstærða og einnig vegna þess að töluverð pressa er á að stytta íþróttakennslu á daginn til að hleypa keppnisíþróttum og íþróttum almennt fyrr inn í íþróttahúsin. Það getur því verið vandkvæðum bundið að lengja íþróttakennslu í formlegum íþróttahúsum einfaldlega vegna þess að menn vilja komast fyrr inn í húsin. Menn geta þá leyst það með því að fjölga enn frekar stöðum eins og íþróttahúsum þar sem hægt er að stunda hreyfingu.

Vandamálið er líka það að íþróttakennsla tryggir ekki endilega hreyfingu. Við skólamenn höfum oft orðið varir við, að nemendur komast upp með að mæta ekki í íþróttir af ýmsum ástæðum. Það er spurning hvað er þar orsök og hvað er afleiðing. Margir af þeim nemendum sem eiga við offituvandamál að stríða eða finnst með einhverjum hætti að útlitið vinni gegn þeim, biðja um leyfi, sækja um undanþágur, óska eftir því að stunda ekki sund eða að mæta í íþróttir og það er ekkert síður vandamál. Við verðum að horfa á lausnina varðandi hreyfingu og fæði, að fara í miklu fjölbreyttari lausnir heldur en að setja það inn í námskrá sérstaklega sem íþróttatíma. Við þurfum að nálgast málið með mjög miklu umburðarlyndi vegna þess að það á að vera styrkur samfélags okkar almennt að sætta okkur við að fólk er ólíkt. Þegar við ræðum um félagslega stöðu feitra krakka er aftur spurningin um hvað er orsök og afleiðing. Stundum erum við búin að búa til þannig staðalímyndir að sumir falla utan við þær og það í sjálfu sér skapar vanlíðan.

Þar sem ég hef komið að þessum málum sem skólastjóri þá hef ég, ásamt fleirum, reynt að nálgast málið með þeim hætti að hafa ákveðið viðmið varðandi þessa svokölluðu fitustuðlaútreikninga. Við reyndum að nálgast þá í gegnum hjúkrunarfræðinga skólanna með því að foreldrum og viðkomandi einstaklingum var boðið upp persónulega þjónustu. Athugað var hvort þeir óskuðu eftir að skólinn ynni með þeim í að breyta málum. Það var gert algerlega einstaklingsmiðað. Ef þess var óskað gátum við í einhverjum tilfellum — og það er það sem ég held að þyrfti að nota í auknum mæli, að leiðbeina í gegnum mötuneytin varðandi mataræði, minna krakkana á að borða hóflega og eins að fylgja því eftir að þeir stundi hreyfingu, ekki til búa til einhverjar staðalímyndir um hvað er gott og hvað er slæmt. Ég hef nefnilega sjálfur þá reynslu úr starfi mínu á undanförnum árum að ég hef séð miklu fleiri anorexíuvandamál en offituvandamál þar sem um alvarleg vandamál er að ræða.

Komið hefur fram hér að menn hafa útfært hreyfistundir í skólum með ýmsum hætti. Leikskólar á Akranesi hafa gert tilraunir og einn þeirra er sérmerktur sem hreyfileikskóli. Þar eru stundaðar íþróttir sérstaklega og hefur verið lögð mikil áhersla á það. Í mínum gamla skóla, þeim sem ég var í áður, hefur verið unnið mikið með svokallaðar hreyfistundir þar sem notað hefur verið hreyfiprógramm undir stjórn Hildar Karenar Aðalsteinsdóttur kennara, en hún hefur unnið mjög vandað kennsluefni. Þar fléttar hún saman hreyfingu og kennslu í öðrum námsgreinum. Hún byrjaði með þetta fyrst og fremst í tengslum við stærðfræði þar sem búnar voru til hreyfistöðvar og alls kyns leikir og viðfangsefni sem tengjast hreyfingu. Krakkarnir voru orðnir kófsveittir af því einu að leika sér í stærðfræði. Með sama hætti þróuðum við áfram efni í íslensku og uppi voru hugmyndir um — og vonandi verður það áfram — að tengja það einhverjum leikjum og viðfangsefnum úti. Það er fellt inn í almenna kennslu og þar þarf ekki að vera sú togstreita sem hæstv. menntamálaráðherra benti á að gæti stundum komið upp þegar menn telja stundir í skólum.

Ég tek heils hugar undir þá þingsályktunartillögu sem hér er. Þótt ég hafi ýmsa fyrirvara og ábendingar varðandi tillöguna þá er það ekki til að tala gegn henni. Ég held að rétta niðurstaðan sé einmitt sú að tillagan fari til hv. menntamálanefndar og fái þar umfjöllun í tengslum við leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólafrumvarpið, sem einn af þeim þáttum sem minna þarf á, annaðhvort með beinum lagatexta eða þá í greinargerðum með frumvörpunum.