135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson.

221. mál
[18:00]
Hlusta

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það er margt sérstakt í skipulagi stjórnkerfis okkar og dálítið undarlegt að skoða á hvað við leggjum áherslu. Það eru til að mynda aðeins örfá ár síðan skipað var prófessorsembætti í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands, hjá þjóð sem nánast hefur lifað af sjávarútvegi í heila öld. Þess vegna ætti áherslan auðvitað að vera önnur en hún er á margan hátt.

Tillagan sem ég mæli fyrir til þingsályktunar, um prófessorsembætti tengt við Jónas Hallgrímsson, er auk mín flutt af hv. þm. Guðna Ágústssyni, Ólöfu Nordal, Björk Guðjónsdóttur, Birgi Ármannssyni, Guðbjarti Hannessyni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Katrínu Jakobsdóttur og Karli V. Matthíassyni.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hlutast til um það við Háskóla Íslands að stofnað verði prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson skáld með vörn og sókn fyrir íslenska tungu og ljóðrækt að meginmarkmiði.“

Íslensk tunga er ankeri íslenskrar þjóðar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni. Íslensk tunga hefur alltaf átt undir högg að sækja, en hún er lífseig með eindæmum og ber þannig spegilmyndina af eðli þjóðarinnar og virðingu fyrir tungunni þótt stundum pusi í þræsingum. Um þessar mundir á íslensk tunga undir högg að sækja og rótgrónar stofnanir á Íslandi hafa meira að segja látið sér detta í hug að setja erlenda tungu í fremstu víglínu tungutaks Íslendinga við hlið íslenskunnar. Við slíku verður að sporna af lífs og sálar kröftum því sjálfstæði Íslands kann að vera í húfi.

Dagleg rækt tungunnar er lífsnauðsyn. Stundum bregður manni í brún, ekki síst í umfjöllun fjölmiðla um tunguna og meðferð þeirra á tungunni. Það var t.d. ekki skemmtilegt fyrir okkur þegar ég hlustaði á einn af forustumönnum íslenska háskólasamfélagsins nota þessi orð: „Ég aldist upp.“ En svona er hættan í hverju fótmáli, jafnvel hjá þeim sem síst skyldi — „ég aldist upp.“

Það er mikilvægt að Íslendingar og Háskóli Íslands sýni þeim manni sem hvað fegurst hefur ritað á íslenska tungu, Jónasi Hallgrímssyni, þá virðingu að vinna markvisst í stíl hans og fylgja eftir til komandi kynslóða þeim blæ íslenskrar náttúru og íslenskrar hugsunar sem hann tengdi saman í ritverkum sínum og skáldskap. Mikilvægi Jónasar Hallgrímssonar fyrir íslenska þjóð mælist ekki í verðbréfum heldur ómetanlegum verðmætum í þjóðarsálinni og persónuleika Íslendinga. Þess vegna er það engin tilviljun að Jónas Hallgrímsson býr í öllum Íslendingum.

Jónas Hallgrímsson kom sem vorvindur inn í íslenskt tungutak fyrir 200 árum og enn er vorvindurinn í loftinu, slíkt var afl skáldsins til þess að ríma við möguleika íslenskunnar á náttúrulegum grunni hennar. Þessi vorvindur hefur dugað okkur vel og við þurfum að tryggja vel að hann verði staðvindur í íslensku samfélagi.

Halldór Blöndal, fyrrverandi alþingismaður og forseti Alþingis, skrifaði í Morgunblaðið fyrir skömmu um Jónas, með leyfi forseta:

„Hann var magískur töframaður og það er eins og allt, sem hann snerti, verði lifandi og aðlaðandi á einhvern hátt.“

Í minningarorðum samtímamanns Jónasar, Konráðs Gíslasonar í Fjölni, segir svo um Jónas, með leyfi forseta:

„Það sem eftir hann liggur mun lengi halda uppi nafni hans á Íslandi og bera honum vitni.“

Öld er liðin frá því að Guðmundur á Sandi ritaði eftirfarandi um Jónas í grein í Eimreiðinni, með leyfi forseta:

„Jónas er æskumaður og æskuskáld. Hann var á undan tíma sínum, og enn þá stendur samtíð vor á herðum hans. Hann eldist ekki né fyrnist og er 100 ára ungur nú. Mál hans er með nýjabrumi enn þá, hreint eins og lindarvatn, ungt eins og döggin á grasinu.

Hann er konungur í Hulduríki.“

Enn þá andar suðrið sæla af tungutaki Jónasar og það er mikilvægt að virkja þessa auðlind inn í hjartslátt þjóðarinnar í starfi og leik. Einn af mörgum möguleikum er sá spennandi kostur að Háskóli Íslands skapi rúm um borð í móðurskipinu fyrir prófessorsembætti tengt nafni Jónasar Hallgrímssonar, prófessorsembætti sem hefði það markmið að fylgja íslenskunni áfram með reisn og styrkja íslenska ljóðrækt.

Það er svo, þegar fjallað er um Jónas Hallgrímsson, að blær hans lifir í brjósti fólksins í landinu og bærist af vörum þess nánast hvern dag, hvort sem það er til hátíðarbrigða eða hversdags. Það er ekki óalgengt að heyra sjómenn í talstöðvarkerfi vitna í Jónas Hallgrímsson, fara með ljóð hans og skjóta fram fallegum framsetningum, svo sem: brosa blómvarir, blika sjónstjörnur, roðnar heitur hlýr, úr Ferðalokum — þar sem viðkomandi sjómaður var að lýsa veðrinu, hvað það væri gott. Og þetta var falleg samlíking.

Enn þá, og mun væntanlega verða svo lengi sem íslensk tunga verður töluð, er sungið hið fallega ljóð Ég bið að heilsa. Þannig mætti lengi telja. Það sem skiptir miklu máli við ákvörðun um að skipa prófessorsembætti tengt Jónasi Hallgrímssyni er að standa fast að rækt tungunnar, meðferð tungunnar og skilningi. Sem betur fer leggja margir á það áherslu og alltaf finnur íslenska tungan sér nýjan farveg þótt hún fari yfir urð og grjót, þótt hún fari yfir þurrlendi og sanda, þá finnur hún sér nýjan farveg í takt við anda íslenskunnar og það er það sem gildir mest.

Það er gott dæmi um tungutakið sem ástæða er til að hlúa að hvernig ýmis skáld hafa með þessum einfalda stíl og takti Jónasar Hallgrímssonar sett fram fallegar myndlíkingar í ljóðum sínum. Það vill svo til að í morgun var ég í Grindavík í dumbungi og rudda og rigningu. Þá rifjaðist upp fyrir mér ljóð Ása í Bæ sem er einn af þeim rithöfundum íslenskum sem hvað næst kemst fegurð í stíl Jónasar Hallgrímssonar, blátærum hreinleika, fallegu tungutaki, lipru og léttu eins og mæltu af munni fram. Ljóðið hljóðar svo, með leyfi forseta:

Í Grindavík drukkum við daga og nætur,

drungaleg ströndin og veður höst.

Þar eru heiðvirðar heimasætur,

hræddar við eftirköst.

Aldrei sáum við Sölku Völku

ja, sú hefði kunnað það franska lag.

En geltandi rakkarnir gáfu til kynna,

göfugan sveitabrag.

Síðan kveður veiðimaðurinn og skáldið í viðlagi sínu:

Gefi nú góðan byr og glannaleg síldarköst

svo koppurinn fyllist og kapteinninn tryllist

svo kraumi í blárri röst.

Svo höldum við hafnar til og heilsum með gleðibrag,

þeim lífsglöðu meyjum sem löngum við þreyjum

og létta okkur strangan dag.

Þetta er ekkert flókið. Þetta er fallega sagt. Það er galdurinn við íslenska tungu, að hún skilar mikilli fegurð þegar vandað er til verka og túlkunar með henni.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni fyrri umræðu verði þessari tillögu vísað til menntamálanefndar Alþingis.