135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson.

221. mál
[18:13]
Hlusta

Flm. (Árni Johnsen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki löggjafans að hlutast til um að tillagan sem hér er lögð fram nái fram að ganga. Það er alveg rétt hjá hæstv. menntamálaráðherra. En eins og aðrar þingsályktunartillögur þá er hún hvatning. Hún er áskorun til háskólasamfélagsins, í þessu tilviki til Háskóla Íslands. Hún er áskorun til hæstv. menntamálaráðherra um að koma þeim boðum, eins jákvætt og hægt er, til háskólasamfélagsins að ástæða sé til að hlúa að þessu. Ekki er verra að hafa bakland hæstv. menntamálaráðherra með sér vegna þess að þá kemur að framkvæmdarvaldinu og fjármagninu sem þarf til þess að brynna öllum góðum hugmyndum til árangurs. Þetta fer saman.

Það er mjög mikilvægt orð í þessari tillögu, þ.e. orðið „ljóðrækt“. Það er að mínu mati klárt mál að eftir að dregið hefur úr kennslu á ljóðum í skólakerfi Íslendinga, eins og gerst hefur á undanförnum áratugum, hefur málvitundinni hrakað og hugsuninni hrakað vegna þess að íslensk tunga, í meðferð okkar bestu rithöfunda, er hvatning. Hún er bensín á daglega hugsun þeirra sem læra ljóðin. Hún er líka agaatriði í skólakerfinu. Þannig getum við staðið saman um að fylgja tungunni og möguleikum hennar eftir.