135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson.

221. mál
[18:17]
Hlusta

Flm. (Árni Johnsen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. menntamálaráðherra um mikilvægi þess að foreldrar, að fólkið á heimilunum lesi fyrir börnin og ekki bara lesi heldur segi þeim líka sögur. Reynslan af þeim þætti er sú að þá verða Íslendingar skáld og semja sögur og þar skapast ævintýri sem eru aldrei skráð en verða munnmælasögur, munnmælaævintýri sem skipta miklu máli fyrir börnin, auka ímyndunarafl þeirra, auka þroska, auka tengsl á heimilinu við foreldra og aðra ástvini og það er auðvitað lykilatriðið í því að rækta tunguna.

Það er mikil ögun að læra ljóð. Við höfum ekki her til þess að byggja upp aga, við höfum engan áhuga á því, en við getum notað vopn tungutaksins til þess að þjálfa fólk til að vinna agað, vinna til árangurs innan þröngs ramma með ákveðið markmið þar sem kúrsinn er tekinn á stefnuna og síðan keyrt. Þetta er bara beint úr sjómannamáli sem hentar vel íslensku tungutaki.

Háskóli Íslands ber ábyrgð á því að styrkja íslenska tungu, meginábyrgð segir hæstv. menntamálaráðherra. Háskóli Íslands ber mikla ábyrgð en ekki hann einn, við berum öll þá ábyrgð, löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið, einstaklingarnir og við eigum að hafa mikinn metnað til þess að styrkja þennan þátt því að við göngum inn í viðsjárverða framtíð (Forseti hringir.) varðandi sjálfstæði Íslands og sjálfstæði íslenskrar tungu.