135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

227. mál
[18:37]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Því ber að fagna að hér kemur til umræðu frumvarp til laga um breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þarna er að vísu aðeins tekið á þremur þáttum varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég held að það sé mikilvægt að fara yfir lögin í heild sinni og ríkisstjórnin hefur í stefnuyfirlýsingu sinni gefið fyrirheit um það, það stendur í kaflanum um menntamál að lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð með það að markmiði að bæta kjör námsmanna enn frekar.

Tillöguflytjendur nefna þarna réttilega atriði sem hljóta að koma til skoðunar. Sérstaklega vil ég taka undir að ákvæðið um ábyrgðarmenn á skuldabréfum er ákvæði sem hlýtur að verða að endurskoða. Það voru miklar umræður um það hvort ekki ætti að breyta hluta af námslánum í námsstyrki. Það hefur verið rætt, ef ég veit rétt, í sambandi við kjarasamningaumræðuna og það hafa verið uppi vangaveltur um það með hvaða hætti lánasjóðurinn geti hjálpað fólki að koma aftur til náms, m.a. fólki sem hefur verið úti í atvinnulífinu og á erfitt með að fara aftur inn í skóla. Þetta fólk nýtur ekki námslána vegna þess að tekjur hafa verið of háar því jafnvel þó að menn séu í fullri vinnu getur verið erfitt að finna pening til að kippa út tekjunum í heilt ár.

Það eru ýmsar aðrar athugasemdir við lánasjóðinn sem þarf að taka til skoðunar. Til dæmis hafa verið vangaveltur um aðstoð við nemendur sem koma inn í framhaldsskólann aftur til að ljúka starfsréttindum, eins og nú er að aukast. Þar hefur m.a. verið horft til þess að íslenska þjóðin — eins og hefur komið fram í kjarasamningum að a.m.k. 35% af vinnuafli hjá ASÍ ef ekki landinu öllu eru ekki með lengri menntun en grunnnám eða grunnskólapróf. Markmiðið er að fleiri og fleiri ljúki framhaldsskólanámi og hluti af því sem þar verður að vinna að er einmitt að stuðla að því að fólk eigi kost á því að koma aftur inn í skóla til að ljúka iðnnámi eða einhverjum afmörkuðum starfsgreinabrautum. Til þess að gera fólki það kleift gæti þurft að grípa til ráðstafana til að hjálpa fólki að fá lán til að stunda slíkt nám.

Ég fagna því að þetta frumvarp kemur fram og lít þannig á að í menntamálanefnd komi til skoðunar hvort það verði sent til ríkisstjórnarinnar eða því komið á framfæri á einhvern hátt í tengslum við þá vinnu sem í hönd fer varðandi endurskoðunina á lánasjóðslögunum í heild.