135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

úttekt á kjörum og réttindum námsmanna.

228. mál
[18:41]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta mál kemur í beinu framhaldi af því máli sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir mælti fyrir rétt áðan. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem er flutt af hv. þm. Auði Lilju Erlingsdóttur sem er varaþingmaður okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún var á þingi fyrr í vetur og vannst ekki tími til að mæla fyrir þeim málum sem við erum að mæla fyrir hér og nú.

Hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir er formaður ungliðahreyfingar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sjálf nýkomin úr námi og hefur kynnt sér vel kjör og aðstæður námsmanna og þingsályktunartillaga sem nú er mælt fyrir á þskj. 247 gengur út á að gerð verði úttekt á kjörum og réttindum námsmanna. Hugmyndin er sú að Alþingi álykti að fela menntamálaráðherra að gera slíka úttekt. Gert er ráð fyrir að hún verði unnin á næstunni. Auðvitað var hugmynd okkar sú að málið færi kannski inn í menntamálanefnd fyrir áramót en það hefur orðið dráttur á því en engu að síður miðum við við það í tillögutexta að þeirri könnun skuli lokið 1. mars 2008.

Markmið þessarar úttektar verði þríþætt:

1. Að kanna rétt námsmanna sem veikjast eða lenda í slysum og geta ekki stundað nám til að fá opinbera aðstoð og námslán engu að síður.

2. Að kanna rétt námsmanna til fæðingarorlofs, sérstaklega með tilliti til kvenna sem veikjast á meðgöngu og geta af þeim sökum ekki skilað fullnægjandi námsárangri.

3. Að skoða þann framfærslugrunn sem miðað er við í úthlutun námslána og endurskoða hann með nýrri framfærslurannsókn.

Í greinargerð með tillögunni, virðulegi forseti, kemur fram að árið 2006 hafi um 17 þúsund einstaklingar stundað nám á háskólastigi á Íslandi. Eins og gefur að skilja er þessi stóri hópur afar fjölbreyttur og með margvíslegar og ólíkar þarfir. Helmingur hópsins mun þó eiga það sameiginlegt að byggja framfærslu sína á námslánum. Samkvæmt núverandi framfærslugrunni Lánasjóðs íslenskra námsmanna er gert ráð fyrir að einstaklingur eyði 497 þús. kr. á ári í húsnæði, hita og rafmagn. Þegar það er reiknað upp á mánaðargrundvöll sjáum við að gert er ráð fyrir að í þennan húsnæðiskostnað eyði námsmaður einungis 42 þús. kr. á mánuði. Það vita það allir sem vita vilja að á höfuðborgarsvæðinu eru slík kostakjör á leiguhúsnæði vandfundin. Það er mat flutningsmanna að tími sé kominn til að framkvæma nýja metnaðarfulla framfærslurannsókn meðal námsmanna og að miðað verði við þá könnun við úthlutun námslánanna. Það hlýtur að gefa augaleið að raunveruleg framfærsla þarf að vera höfð til hliðsjónar þegar reiknaður er út framfærslugrunnur fyrir námsmenn.

Til að hljóta námslán þarf að uppfylla ýmsar kröfur hvað varðar námsárangur og námsframvindu. Þar af leiðandi geta veikindi, slys eða erfið meðganga og fæðing veikt fjárhagsstöðu margra námsmanna. Það er því nauðsynlegt að mati flutningsmanna að kanna réttindi og kjör námsmanna og kortleggja ástandið eins og það er í dag til þess að geta bætt það. Sem dæmi má nefna að þegar námsmenn eignast börn fá þeir fæðingarstyrk samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof en til að fá þann fæðingarstyrk þarf námsmaður að skila 75% námsárangri í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum. Þessi krafa gerir það að verkum að ef námsmaður verður veikur á meðgöngu og nær ekki að skila tilteknum námsárangri þá fær viðkomandi ekki þennan fæðingarstyrk sem námsmaður heldur flokkast hann þá utan vinnumarkaðar. Sú upphæð sem þá er um að ræða dugir ekki fyrir framfærslu og vantar talsvert upp á. Það er mat flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu, virðulegi forseti, að það sé þörf á að greina þennan vanda, finna út hver veruleiki námsmanna er í þessum efnum, hvort mörg dæmi séu um það að ungt fólk flosni upp frá námi vegna erfiðra aðstæðna og aðstæðna sem skerða réttindi þeirra og kjör og við teljum afar nauðsynlegt að finna lausnir á þessum vandamálum.

Það er metnaðarfullt markmið og sameiginlegt markmið okkar þingmanna í öllum flokkum að hækka menntunarstig þjóðarinnar og fjölga þeim sem útskrifast með háskólamenntun. Til að svo megi verða þurfum við að skapa námsmönnum þau kjör að þeir geti haldið sig að náminu og við þurfum að tryggja það að sú lagaumgjörð sem við búum námsmönnum og kjörum þeirra sé með þeim hætti að jafnrétti til náms sé tryggt burt séð frá þeim aðstæðum sem kunna að koma upp tímabundið í lífi námsmanna.

Það er ljóst að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt metnað okkar í að flytja mál sem varða aðstæður námsmanna. Við erum í dag með fjögur mál á dagskrá því að í kjölfarið á þeim málum sem við höfum mælt fyrir, ég og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, þá kemur hingað í ræðustól hv. þm. Jón Bjarnason og talar fyrir tillögum um stofnun háskólasetra, annars vegar á Akranesi og hins vegar á Selfossi. Þetta er í samræmi við menntastefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gerir ráð fyrir því ekki einungis að tryggt sé jafnrétti til náms og námsmönnum séu tryggð þau kjör sem gera þeim kleift að halda sig að náminu, heldur gerir einnig ráð fyrir því að framhaldsnám verði gert aðgengilegt fólki sem næst heimabyggð. Til þess erum við að flytja þær tillögur sem við hingað til höfum flutt og verður mælt fyrir síðar, um háskólasetur vítt og breitt.

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. menntamálanefndar Alþingis til frekari umfjöllunar.