135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:35]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er búið að segja það nokkrum sinnum og skal endurtekið nú að það kemur auðvitað ekkert í staðinn fyrir 60 þús. tonn af þorski (GAK: Nema þorskur.) — nema þorskur. Við erum nú væntanlega og vonandi að byggja upp þorskstofninn, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefnir hér. Þegar ráðist var í þessar mótvægisaðgerðir var horft til skamms tíma þar sem hægt væri að grípa til skammtímaverkefna en síðan einnig til langs tíma og uppbyggingar innviða samfélagsins. Þessar aðgerðir eru allar í gangi.

Þegar við horfum til atvinnulífsins hjá okkur á landsbyggðinni hefur störfum mjög fækkað í hinum hefðbundnu atvinnugreinum okkar, landbúnaði og sjávarútvegi, aðallega vegna tæknivæðingar í þessum greinum. Þess vegna er það viðvarandi verkefni okkar að endurskapa atvinnulífið á landsbyggðinni. Til þess þurfum við tæki sem við höfum reynt að þróa. Verkefni eru hjá iðnaðarráðuneytinu en einnig í fleiri ráðuneytum þar sem verið er að styrkja stoðkerfi atvinnulífsins og atvinnugreinanna þannig að hægt sé að horfa til nýrra starfa. Þarna er engin ein patentlausn, því miður, en þessi verkefni lúta að ýmsum þáttum, bæði sköpun á nýjum störfum (Forseti hringir.) fyrir konur og einnig ýmiss konar verkefnum (Forseti hringir.) sem við höfum horft til.