135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að hæstv. ríkisstjórn horfist í augu við að það þarf að endurskoða bæði umfang og útfærslu hinna svokölluðu mótvægisaðgerða. Því miður virðist sem nýtt og stórt tilefni bætist við það sem áður var komið fram og það er hættan á að loðnuvertíðin sé að misfarast að mestu eða jafnvel öllu leyti. Það brýnasta núna er auðvitað að gera allt sem hægt er til að það takist að mæla stofninn og að bæði Hafrannsóknastofnun, með skipum sínum, og veiðiskip reyni í sameiningu til þrautar á næstu dögum að fá úr því skorið hvort loðnustofninn þolir veiði og er til staðar í veiðanlegu magni.

Ég vil láta það koma fram að mér finnst eðlilegt að sjávarútvegsnefnd Alþingis fundi, fari yfir þessa stöðu og kalli til sín hagsmunaaðila og rannsóknaraðila. Þessa stóru ákvörðun um það hvort það verður að hverfa frá hugmyndum um frekari loðnuveiði á þessari vertíð á auðvitað að taka í víðtæku samráði því að hún er mjög stór. Fari svo að loðnuvertíðin bregðist hverfa milljarðar, ef ekki milljarðatugir, út úr þjóðarbúinu og sum byggðarlögin sem háðust eru þessum veiðum verða af milljarðatekjum, eins og Vestmannaeyjar og sjávarbyggðirnar á Austfjörðum og norðausturlandi. Það sem er kannski alvarlegast er að sjómenn og fiskverkafólk í landi sem treysta mjög á tekjurnar sem vertíðin gefur og eru oft stór hluti tekna ársins verða af þeim og var þó nóg komið fyrir vegna þess tekjusamdráttar sem viðkomandi byggðarlög og svæði verða fyrir vegna samdráttar í þorskafla.

Það er því fagnaðarefni að ríkisstjórnin ætli að endurskoða útfærslu og vonandi einnig umfang mótvægisaðgerðanna og vonandi verður það þá gert í víðtæku samráði, bæði þverpólitísku og í samráði við heimamenn en ekki með þeim ósköpum sem var síðasta vor.