135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um mótvægisaðgerðir við niðurskurði á þorskveiðum á yfirstandandi fiskveiðiári þarf að hafa í huga hverjar stærðirnar eru. Mótvægisaðgerðirnar fyrir utan það sem áður var ákveðið að gera í samgöngumálum eru u.þ.b. 4 milljarðar kr. sem dreifast á þrjú ár. Samdrátturinn í þorskveiðum þýðir í útflutningstekjum 10–15 milljarða kr. á hverju ári.

Sjávarútvegsráðherra hefur ekki viljað staðfesta uppbyggingaráætlunina sem hann styðst við á þorskstofninum en ég tel mig hafa upplýsingar um að gert sé ráð fyrir því að það taki sex ár að ná veiðinni aftur upp í 190 þús. tonn. Það verði 130 þús. tonn í þrjú ár og síðan hægt vaxandi seinni þrjú árin. Menn geta því séð hvað þetta er mikill samdráttur á hverju ári í mjög langan tíma. 4 milljarðar eru dropi í hafið þarna á móti, það er varla að það taki því að tala um það eða nefna það sem mótvægisaðgerð. Það er viðleitni og það skal viðurkennt og tekið undir, menn viðurkenna vandann með því að grípa til mótvægisaðgerða en þær draga ekkert á móti þeim samdrætti sem mun verða vegna þessara aðgerða. Að mati formanns Samtaka fiskvinnslustöðva, Arnars Sigurmundssonar, er vitað að a.m.k. 500 störf muni hverfa úr fiskvinnslunni og að hans mati a.m.k. önnur 500 störf úr atvinnugreininni. Það eru varanlega töpuð störf og þess vegna er niðurstaðan sú þegar samdrátturinn er borinn saman við mótvægisaðgerðirnar að það blasir við að það mun fækka á landsbyggðinni um mörg þúsund manns á næstu 4–6 árum. Það er það sem að er stefnt og það er stjórnvaldsaðgerð, virðulegi forseti, það er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að fækka fólki á landsbyggðinni með þessum hætti.