135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:45]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram, ég held að hún sé afar mikilvæg. Það velkist enginn í vafa um að mótvægisaðgerðirnar sem slíkar geta aldrei með svo skömmum fyrirvara byggt upp atvinnulíf sem mætir öllum þeim störfum sem tapast vegna samdráttar eða aflabrests vegna breytinga í náttúrunni. Það liggur alveg fyrir.

Mótvægisaðgerðirnar eru hugsaðar þannig að þær styrki smám saman innviði þeirra samfélaga sem í hlut eiga til að þau geti sjálf byggt upp öflugri starfsemi. Verið er að tala um samgöngur, fjarskipti og fleira til að skapa umhverfi þannig að hægt sé að byggja upp störf sem því miður, og það er rétt sem hér hefur verið rakið, eru smám saman að tapast, m.a. vegna fyrirkomulags í sjávarútvegi. Kvótakerfið er þannig uppbyggt að ákveðin hagræðingarkrafa er fólgin í því sem fækkar störfum, sumir tala um allt að 3–4% á ári, og svo koma tækniframfarir einnig til. Það er því alveg ljóst að ef tryggja á og styrkja byggðirnar til lengri tíma þarf að grípa til aðgerða sem byggja upp og styrkja strúktúrinn í kringum samfélögin til að þau geti byggt starfsemi sína upp sjálf.

Nú er verið að leggja til 12,5 milljarða á næstu þremur árum í þessar aðgerðir og það er hvorki sanngjarnt né réttlátt að halda því fram að ekki sé verið að gera neitt. Ef þingmenn gagnrýna þær ráðstafanir sem gripið er til er líka rétt að þeir leggi sjónarmið sín og hugmyndir fram, hrópi ekki bara á aðgerðir án þess að hafa neitt fram að færa. Það er lykilatriði. Framsóknarmenn mótmæltu niðurskurði á þorskinum og það er sjónarmið út af fyrir sig í þessari umræðu. Þessi leið var farin og ríkisstjórnin hefur brugðist við með það að leiðarljósi að byggja samfélögin upp til lengri tíma.