135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:49]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka það fram, út af þeim vondu tíðindum sem berast af loðnunni, að auðvitað er sjálfsagt að sjávarútvegsnefnd fái að fylgjast með því, haldi fund vegna þess og ræði við Hafrannsóknastofnun og þá sem eru að fara yfir þessi mál einmitt á þessum klukkutímanum. En því miður er það þannig að við verðum að geta mælt ákveðinn stofn þannig að hægt sé að gefa út kvóta. Ástandið er mjög alvarlegt sem stendur.

Ég vildi aðeins segja út af mótvægisaðgerðunum að auðvitað var reynt að hafa samráð við sem flesta, m.a. samtök sveitarfélaga. Atvinnuþróunarfélögin eru mjög afgerandi í þessu starfi og Byggðastofnun og allir lögðu eitthvað inn í hugmyndabankann sem farið var af stað með þegar ráðist var í mótvægisaðgerðirnar. Þær eru auðvitað á mjög mörgum sviðum, það er verið að leggja í hafrannsóknir o.fl.

Hv. þm. Sigfús Karlsson nefndi að Strýta væri búin að segja upp 70 manns, en það er ekki vegna niðurskurðar á þorskkvótanum, það er vegna annarra ástæðna. En það fólk sem hefur starfað í þeirri atvinnugrein mun þurfa að horfa til annarra átta og þess vegna eru ýmiss konar námskeið hluti af mótvægisaðgerðunum, brautargengis- og sóknarbrautanámskeið, þau hafa m.a. verið haldin á Akureyri, þar sem verið er að gefa fólki tækifæri til að endurmennta sig. Síðan eru þessir sjóðir sem ég nefndi áðan, (Forseti hringir.) m.a. á sviði ferðamála og fleiri þátta, þar sem hægt er að fara í uppbyggingu á atvinnulífinu og breytingar.