135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þörfin fyrir að endurskoða umfang og útfærslu þessara mótvægisaðgerða hefur í sjálfu sér ekkert með það að gera að það sem ákveðið var, þá loksins það var gert á síðasta hausti, sé ekki góðra gjalda vert, margt sem þar er verið að gera, að byggja upp innviði samfélagsins, bæta samgöngur, aðgengi að menntun o.s.frv. Þetta snýst ekkert um það. Það blasir einfaldlega við okkur núna að áfallið er svo stórt, að tekjubresturinn er svo mikill og kemur svo harkalega niður og bresturinn í atvinnu, í ljósi allra þeirra uppsagna sem eru orðnar, er orðinn svo mikill að óumflýjanlegt er að horfast í augu við það og endurmeta stöðuna. Ef það er svo að bætast við að ofan á 10 til 15 milljarða samdrátt vegna minni þorskafla bætist núna 10 til 12 milljarða tekjubrestur vegna þess að loðnuvertíðin bregðist þá eru þetta auðvitað orðnar þannig upphæðir og þvílíkt áfall að það er algerlega óhugsandi að menn geti borið það án einhverra gagnráðstafana.

Þessi tekjubrestur lendir á fyrirtækjunum, sjómönnum, fiskverkafólki í landi, hafnarsjóðum sveitarfélaganna — hverra tekjur munu nú hrynja um allt norðan-, austan- og suðaustanvert landið ef svona fer með loðnuvertíðina — og sveitarfélögunum. Út í gegnum greinina dreifist þetta auðvitað í formi þess að þjónustuaðilar, og aðrir sem eru um afkomu sína háðir umsvifum í sjávarútvegi, verða fyrir áfalli. Þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson biður um tillögur þá liggja þær fyrir. Við höfum frá því í vor bent á þá handhægu leið að ráðstafa í gegnum sveitarfélögin stórauknum fjármunum í þessu skyni, setja í umferð á móti tekjubrestinum í gegnum þau tæki sem nærtækust eru, þ.e. sveitarfélögin á viðkomandi svæðum, stóraukna fjármuni.