135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:56]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það velkist enginn í vafa um að niðurskurður í aflaheimildum í þorski og hugsanlegur niðurskurður í loðnuveiðunum hefur geysileg áhrif á landsbyggðina og hefur geysileg áhrif á samfélagið. Það er það verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Þær mótvægisaðgerðir sem ráðist var í nú á haustdögum tóku mið af niðurskurði á þorski. Loðnan er síðan núna til viðbótar. Auðvitað er það sjónarmið, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefnir, að ríkisvaldið taki nánast að sér að skapa ný störf og leggja 10 þúsund milljónir í slík verkefni. En er tryggt að það byggi þessi samfélög upp varanlega, skapi ný störf varanlega? Það tekur tíma að byggja upp atvinnulíf á móti þeim störfum sem tapast og það er grundvallarhugsunin sem lagt var upp með í mótvægisaðgerðunum í haust.

Sú staða kann hugsanlega að vera komin upp að við þurfum að bæta í, það er alveg ljóst. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að mótvægisaðgerðirnar séu í sífelldri endurskoðun. Þannig þarf það að vera. Enginn sá fyrir að hugsanlega yrði svipað áfall í loðnuveiðunum eins og var í þorskveiðunum. Það er verkefni okkar núna að fara að takast á við þetta, bregðast við þessu í þessu nýja ljósi sem smám saman er að skýrast. Ég tek undir það að menn hafi samráð sín á milli. Þegar við verðum fyrir slíkum sameiginlegum áföllum er það sameiginlegt verkefni þjóðarinnar að takast á við það. Það er einfaldlega þannig og þannig þurfum við að takast á við þetta verkefni. Það er því mikilvægt að menn leggi hugmyndir inn í þetta. Við kynntum nýverið hugmyndir um notkun á byggðakvótanum sem er innlegg í það hvernig við getum styrkt landsbyggðina. Það verður svo að koma í ljós hvort pólitískur vilji er til að fara þá leið. En það er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir leggi allir fram hugmyndir sínar.