135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

hækkandi áburðarverð og framleiðsla köfnunarefnisáburðar.

354. mál
[14:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Samkvæmt þeim gögnum sem nú liggja fyrir mun verð á áburði hækka á milli ára sem nemur milli 70 og 80%. Áburðarmarkaðurinn á Íslandi er um 62 þús. tonn eða verðmætið eins og nú stendur er um 2,5 milljarðar kr. Boðuð hækkun á áburði til landbúnaðar nemur 1–1,2 milljörðum kr. Áburðarkaup eru um 6% af heildarútgjöldum kúabúa en hjá sauðfjárbændum um 10%.

Hvað þýðir þetta fyrir bændur? Hagfræðingur Bændasamtakanna, Erna Bjarnadóttir, ritaði um þetta í síðasta Bændablaði . Hækkun á verðlagsgrundvelli kúabús nemur 3,50 kr. á lítrann, og á búum þar sem áburðarnotkun er meiri en þessu nemur er um hærri fjárhæðir að ræða, eins og t.d. í kornrækt. Þetta þýðir nærri 2 kr. heildsöluverðshækkun á lítra mjólkur. Eru þá ótaldar aðrar hækkanir eins og á kjarnfóðri og dísilolíu sem tengjast líka áburðarverði.

Augljóslega hækkar framleiðslukostnaður nautakjöts samhliða. Fyrir nautgriparæktina getur útgjaldaaukningin því í heild verið varlega áætlað á bilinu 400–500 millj. kr. Á sauðfjárbúum er raunhæft að telja að kostnaður á framleitt kíló kjöts hækki um ríflega 60 kr. Varlega áætlað er hér um 500 millj. kr. útgjaldaaukningu að ræða. Á kartöflubúum er áburðarkostnaður um 8% af rekstrarkostnaði og raunhæft er að reikna með að sá kostnaður tvöfaldist núna á þremur árum. Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, segir einnig í Bændablaðinu nýverið, með leyfi forseta:

„Ljóst er að þessar hækkanir verða ekki bornar af bændum einum. Þær verður að sækja m.a. út í afurðaverð ef fjöldi framleiðenda á ekki að leggja niður sinn rekstur. Hér eru að verki öfl sem lítt verður ráðið við en kalla á skilning og skoðun af hálfu ráðamanna, ekki aðeins á Íslandi heldur víðar.“

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, herra forseti:

1. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við áhrifum hækkandi áburðarverðs á framleiðslukostnað landbúnaðarvara og verð á þeim til neytenda?

2. Mun ráðherra láta kanna ástæður fyrir þeim mikla mun sem er á áburðarverði hér á landi og í nágrannalöndunum, t.d. Noregi?

3. Mun ráðherra beita sér fyrir athugun á hagkvæmni þess að hefja köfnunarefnisvinnslu og áburðarframleiðslu að nýju hér á landi í ljósi hinna miklu verðhækkana á áburði?

Ég tel þetta vera mjög athugandi.

4. Mun ráðherra beita sér fyrir átaki til að efla lífræna ræktun til mótvægis við hækkandi verð á innfluttum áburði?

Þannig væri hægt að takast á við breytta tíma í landbúnaði, (Forseti hringir.) herra forseti.