135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

hækkandi áburðarverð og framleiðsla köfnunarefnisáburðar.

354. mál
[14:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta upp og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir tiltölulega jákvæð svör. Út frá því sem við vorum að ræða hér síðast má segja að áburðarverðshækkunin, að viðbættri mikilli hækkun á olíu og ýmsum aðföngum til landbúnaðar eins og innfluttu kjarnfóðri vegna hærra heimsmarkaðsverðs á korni, sé sambærilegt eða langt til sama áfall fyrir landbúnaðinn og þorskaflabresturinn eða loðnubresturinn fyrir sjávarútveginn.

Það er mikilvægt að stjórnvöld ræði við hagsmunasamtök bænda og aðra sem þessu tengjast. Ég minni líka á úrvinnsluiðnað búvara hér í landinu sem á mikið undir því að stöðugleiki þar raskist ekki. Ég tel að það hljóti að geta komið til greina að skoða einhverjar mótvægisaðgerðir í þessu tilviki, hvaða leiðir sem menn færu í þeim efnum, rétt eins og menn hafa rætt og að hluta til gripið til gagnvart sjávarútveginum. Þarna er á leiðinni stórkostlegt áfall, tekjufall og/eða stórhækkun á afurðaverði sem er líka afar vondur kostur.