135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum.

378. mál
[14:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Hanna Birna Jóhannsdóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Það er löngu ljóst að samgöngumál Vestmannaeyja eru í lamasessi. Fyrir síðustu kosningar voru allir stjórnmálaflokkar sammála um að samgöngumál Vestmannaeyja yrðu að hafa forgang. Það er líka ljóst að búið er að ákveða höfn í Bakkafjöru.

Í útboðsgögnum 18. okt. 2007 segir að fyrsta ferð í Bakkafjöru samkvæmt samningi sé áætluð á tímabilinu 1. júlí 2010 til 1. júlí 2011.

Tíminn líður hratt og brátt kemur vor en ekkert bólar enn á lausn þótt vitað sé að hinn gamli 16 ára Herjólfur, sú happafleyta, anni ekki eftirspurn á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar – Þorlákshöfn – Vestmannaeyjar.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur margítrekað beiðni sína um úrbætur, síðast 12. febrúar á fundi í bæjarráði þar sem bæjarráðið leggur áherslu á að unnið verði eftir samþykktum Vestmannaeyjabæjar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Bæjarráð samþykkir að óska eftir því að viðbótarferðir verði að nóttunni alla föstudaga frá 6. júní til 29. ágúst.“

Þakka skal það sem áunnist hefur en meira þarf til svo þjóðvegurinn á milli lands og Eyja virki líkt og aðrir vegir. Því hef ég leyft mér að flytja eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra:

Hvernig hyggst ráðherra bæta samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum þar til Bakkafjöruhöfn verður tilbúin?