135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum.

378. mál
[14:20]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Af því ég sit nú í samgöngunefnd þá er mér málið skylt. Það fer ekki á milli mála að ferja til Vestmannaeyja eru þjóðvegur eyjanna. Þeir áfangar sem núna er búið að ákveða með því að byggja upp höfn í Bakkafjöru munu væntanlega efla samgöngur til Eyja, fjölga ferðum og gera hraðari og betri en verið hefur.

Ég hygg hins vegar að ýmislegt verði til þess að verktíminn dragist og verði lengri en menn áætla. Það er oft svoleiðis í stórum framkvæmdum. Ég held að menn megi standa ákaflega vel að verki ef þetta á allt að vera komið í gagnið á árunum 2010 eða 2011 þótt það sé ætlað. Ég vil síður að verkið tefjist en ég held að menn ættu að (Forseti hringir.) gera ráð fyrir því og þar af leiðandi tel ég að það væri afar gott að hæstv. samgönguráðherra mótaði tillögur um (Forseti hringir.) hvernig eigi að taka á málum þangað til.