135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum.

378. mál
[14:23]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu. Það er vissulega mikilvægt, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom inn á, að þjóðvegurinn til Vestmannaeyja sé opinn. Í vetur hefur því miður orðið töluverður misbrestur þar á. Nú ætla ég ekki að vera svo harður stjórnarandstæðingur að ég kenni ríkisstjórninni um veðráttu á Íslandi en þó vil ég koma því á framfæri að ég hygg að hægt sé að gera úrbætur varðandi aðkomu Herjólfs. Ég held að það eigi sérstaklega við um aðkomuna í Þorlákshöfn til þess að ferðir detti sjaldnar niður en nú er.

Ég legg áherslu á að samgönguráðuneytið skoði málið en líti ekki svo á að samgöngurnar sem nú eru megi drabbast niður af því að Bakkafjara sé á leiðinni. Það er brýnt að ekki endurtaki sig það sem var í vetur, að ferðir detti niður margar í röð og Eyjarnar séu einangraðar. (Forseti hringir.)