135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum.

378. mál
[14:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka aftur fyrirspyrjanda og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Það er eins og vant er þegar við ræðum samgöngumál, þá verða líflegar og fjörlegar umræður í þingsal. Þannig verður það örugglega áfram.

Ég hef ekki miklu við það að bæta sem hér hefur komið fram um hvernig inna beri af hendi samgöngur til Eyja. Ég ítreka að menn vilja alltaf gera betur og alltaf fá meira. Við skulum halda því til haga að ferðir Herjólfs eru eitthvað í kringum 750 talsins … (Gripið fram í.) Þótt skipið sé gamalt og betra hefði verið að komast fyrr í hitt skulum við vona að við fáum góð tilboð 1. eða 2. apríl næstkomandi og áætlanir gangi eftir.

Eins ber að halda því til að haga að flug til Eyja er ríkisstyrkt, tvær ferðir á dag alla daga ársins auk hinnar þriðju ferðar sem sett var inn af þessari ríkisstjórn á síðastliðnu sumri. Að auki verða þær 20 eða 25 ferðir sem voru ákveðnar á síðasta sumri, aukaferðir Herjólfs sem bæjarstjórn Vestmannaeyja getur ráðið nokkru um hvenær verða farnar. Hún hefur svolítið um það að segja.

Auðvitað lýkur umræðu um samgöngur til Eyja eða annarra staða aldrei en ég er ákaflega stoltur af því að sitja í ríkisstjórn sem þó hefur unnið að samgöngumálum til Eyja. Ég er ákaflega stoltur af þeim áfangasigrum sem náðst hafa þar og vona að Herjólfur haldi ekki áfram að drabbast niður, að honum verði haldið við vegna þess að hann mun standa undir samgöngum til Eyja þar til nýr Herjólfur, kemur sem vonandi gengur eftir árið 2011. En ég þakka fyrir umræðuna.